Sundabakki: frummatsskýrsla komin fram

Lögð hefur verið fram skýrsla um mat á umhverfisáhrifum af því að stækka viðlegukantinn við Sundabakka á Ísafirði og auka sjávardýpi utan hans þannig að stærri og fleiri skip geti lagst að bryggju. Framkvæmdinni er ætlað að auka fjölbreytni og þjónustu við nýtingu
hafnarinnar sem og auka tekjur hennar.

Lengja á kantinn um allt um 300 m og auka dýpi við bakkann í allt að 11 m. Um 90.000 rúmmetrar af uppdælda efninu verða nýttir í landfyllingu við hafnarkantinn. Heildarmagn uppdælds efnis verður allt að 410.000 rúmmetrar.

Dýpkunin er háð mati á umhverfisáhrifum. Metnir eru tveir valkostir með misumfangsmikilli dýpkun. Áhrif á strauma, öldufar, rof eru metin óveruleg og áhrif á samfélag eru metin
óveruleg og talsvert jákvæð. Áhrif á lífríki sjávar (botndýralíf) eru metin nokkuð neikvæð og áhrif á fugla óveruleg til nokkuð neikvæð.

Dýpi við Sundabakka er 7-8 m og núverandi stálþil er 190 m að lengd. Dýpkunin felur í sér allt að 410.000 rúmmetra efnisnám af botninum.

Valkostir

Í frummatsskýrslu eru lagðir fram tveir kostir virkjunarframkvæmda til mats á umhverfisáhrifum, auk núllkostar, en kostunum er lýst í kafla 5.3:

Valkostur A: Dýpkað verður niður á 11 m við viðlegukant og í innsiglingarrennu. Alls á 112.000 fermetra svæði.

Valkostur B: Dýpkunin verði 9 m við viðlegukant á 38.100 fermetra svæði en 8 m í innsiglingarrennu á 14.500 fermetra svæði.

Auk þess fela báðir valkostirnir í sér 300 m lengingu á stálþilskanti Sundabakka og um 90.000 rúmmetra landfyllingu innan hans.

Heildaráhrif
Áhrif beggja valkosta á botndýralíf í Skutulsfirði vegna dýpkunar við Sundabakka eru metin nokkuð neikvæð og tímabundin. Áhrif framkvæmdarinnar á strauma, öldufar og rof verða óveruleg og ekki er búist við að áhrif verði á vatnsskipti í Pollinum. Ef til þess kemur að varpa þurfi dýpkunarefni í hafið eru áhrif á botndýralíf á losunarstað metin nokkuð neikvæð. Áhrif á fuglalíf eru metin óveruleg til nokkuð neikvæð í ljósi þess að svæðið er manngert og verulega raskað að stórum hluta fyrir framkvæmdir.
Áhrif á kríuvarp verða nokkuð neikvæð tímabundið en gætu verið óveruleg til lengri tíma litið. Áhrif vegna uppfyllingar og dýpkunar verða varanleg og nokkuð neikvæð fyrir þær fuglategundir sem sækja sér fæðu á svæðið sem mun raskast. Í heildina eru áhrif á samfélag talin vera varanleg og talsvert jákvæð vegna möguleika hafnanna til að bjóða aukna þjónustu og bæta samkeppnishæfni hennar.
Áætlað er að umsvif og tekjur hafnarinnar aukist og störfum fjölgi. Tímabundið geta orðið neikvæð áhrif á hljóðvist og loftgæði (vegna ryks) en með mótvægisaðgerðum er talið að áhrifin verði óveruleg.

DEILA