SUF lýsir yfir vantrausti á ráðherra Sjálfstæðisflokksins

Rétt í þessu  var 45. Sambandsþing SUF, Sambandsþing ungra Framsóknarmanna, sem  stendur nú yfir, að lýsa yfir vantrausti á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Kristján Þ. Júlíusson. Er honum borið að sök að vanrækja landbúnaðarmál í starfi sínu sem ráðherra. Það er fáheyrt að samtök innan eins stjórnarflokks lýsi formlega yfir vantrausti á ráðherra annars stjórnarflokks eins og hér um ræðir.

Sambandsþingið er haldið í Reykjavík.

„Ungt Framsóknarfólk lýsir yfir vantrausti á sitjandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Störf ráðherra á kjörtímabilinu hafa sýnt að ráðherra mismuni málaflokkum með þeim hætti að málefni landbúnaðar sitji á hakanum og sé ekki sinnt. Landbúnaður er grundvallarstoð í íslensku samfélagi sem ekki má liggja milli hluta vegna mismunun ráðherra. Ungu Framsóknarfólki finnst það óásættanlegt að landbúnaðarráðuneytið sé einungis skúffa í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.“

 

DEILA