Skólabörn á Þingeyri fyrst í gegnum Dýrafjarðargöngin

Eins fram kemur í tilkynningu Vegagerðarinnar verða skólabörn á Þingeyri ásamt Gunnari Gísla Sigurðssyni, sem hefur mokað Hrafnseyrarheiði síðan árið 1974, fyrst til að fara í gegnum Dýrafjarðargöngin.

Samgönguráðherra barst erindi frá skólabörnunum  með þessari ósk og svaraði því um hæl á þennan veg:

 

Syðra-Langholti, 21. október 2020

 

 

Kæru nemendur Grunnskólans á Þingeyri.

 

Ég þakka ykkur kærlega fyrir bréfið fyrr á þessu ári þar sem þið spyrjið hvort þið megið fara fyrst í gegnum Dýrafjarðargöng þegar þau opna. Með bréfinu sýnið þið í senn frumkvæði og takið ábyrgð á því að vera virkir þátttakendur í ykkar samfélagi. Sjónarmið barna skipta nefnilega máli þegar ákvarðanir eru teknar og samstarf og samtöl við börn og ungmenni skapa barnvænlegt og betra samfélag.

Dýrafjarðargöng hafa verið til umræðu og í undirbúningi um margra ára skeið og til að rifja upp þá sögu sýndu nemendur við Grunnskólann á Þingeyri frumkvæði með því að taka fyrstu skóflustunguna að Dýrafjarðargöngum fyrir u.þ.b. tíu árum síðan. Mér þykir þetta framtak aðdáunarvert og til fyrirmyndar því að ég veit vel að Hrafnseyrarheiðin hefur oft verið mikill farartálmi og erfið viðureignar.

Það er einnig gaman að segja frá því að vinna í Dýrafjarðargöngum hefur gengið vonum framar þrátt fyrir harðan vetur og Covid-19 á lokasprettinum.

En nú er biðin á enda. Dýrafjarðargöng verða opnuð á sunnudaginn kemur, 25. október, og leysa þar með Hrafnseyrarheiði af hólmi. Göngin munu bæta umferðaröryggi, spara tíma á ferðalögum og nýtast vel um ókomin ár.

Í samráði við Vegagerðina er það mér sönn ánægja að bjóða ykkur að upplifa það að fá að fara fyrst í gegnum Dýrafjarðargöng. Það er einnig gaman að segja frá því að Gunnar Gísli Sigurðsson, sem hefur mokað Hrafnseyrarheiðina frá árinu 1974, ætlar að verða samferða ykkur í gegnum göngin.

 

Kveðja,

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

DEILA