Skipverjarnir fara frá borði í dag

Skipverjarnir 25 á Júlíusi Geirmundssyni munu í dag yfirgefa togarann sem liggur við bryggju á Ísafirði.
Umdæmislæknir sóttvarna hefur gefið leyfi fyrir þessu með skilyrðum.

Niðurstöður sýnatöku frá í gær bárust í hádeginu. Níu skipverjar hafa jafnað sig á veikindunum, eru með mótefni og því frjálsir ferða sinna.

Þrettán eru smitaðir og þurfa að vera í einangrun áfram. Þrír eru hvorki smitaðir né með mótefni og þurfa því að sæta sóttkví.

Af þessum fara fimm í farsóttarhús í nágrenni Ísafjarðar sem sett verður upp af þessu tilefni. Aðrir fara til síns heima eða í íbúðir á eigin vegum víða um land. Einn verður eftir um borð í skipinu.

Vettvangsstjórn og aðgerðastjórn hefur verið virkjuð við uppsetningu farsóttahússins, flutning á fólki og annað sem tengist málinu. Samráð hefur verið haft við sóttvarnalækni, Sjúkratryggingar Íslands, Rauða kross Íslands og fleiri.

DEILA