Samið um sjúkraflutninga á norðanverðum Vestfjörðum

Birgir Gunnarsson, Sigurður A. Jónsson, slökkviliðsstjóri, og Gylfi Ólafsson.

Ísafjarðarbær og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafa undirritað endurnýjaðan samning um sjúkraflutninga á svæðinu frá Dynjanda til botns Ísafjarðardjúps.
Sjúkraflutningarnir verða því áfram reknir af Slökkviliði Ísafjarðarbæjar. Samningurinn var samþykktur á 462. fundi bæjarstjórnar og gildir út árið 2024.

Tvö nýmæli eru í samningnum. Það fyrra er utanumhald með vettvangsliðum, sjálfboðaliðum sem hlotið hafa einfalda þjálfun og geta stokkið til þegar óhöpp verða í þorpunum í kringum Ísafjörð. Sérstaklega eru þeir mikilvægir ef færð spillist. Á annan tug vettvangsliða luku þjálfun í vor og var efnt til verkefnisins í kjölfar ófærðar og snjóflóða í upphafi árs.

Hitt er að sjúkraflutningar í Dýrafirði eru endurskoðaðir. Þar hafa nýir sjúkraflutningamenn notið þjálfunar og þegar bráða sjúkraflutninga þarf í Dýrafirði og nærsveitum verða kölluð til lið frá bæði Þingeyri og Ísafirði.

„Slökkvilið Ísafjarðarbæjar er vel þjálfað og frábærlega mannað. Þau hafa staðið sig frábærlega í verkefnum síðustu mánaða og missera. Áframhaldandi samstarf tryggir að íbúar á norðanverðum Vestfjörðum munu áfram búa við mikið öryggi,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar fagnar því að þessi samningur sé í höfn. „Þannig er tryggt að þessi þjónusta er áfram veitt af sérþjálfuðum sjúkraflutningsmönnum hjá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar.
Það er hagkvæmt fyrir alla aðila að þjónustunni skuli fyrirkomið með þessum hætti og áframhald verði á góðu samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða,“ segir Birgir.

DEILA