Samgönguráðherra: skipstjóri ræður á skipi

I minnisblaði sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra lagði fyrir ríkisstjórn í gær eru rakin ákvæði sjómannalaga, sem kunna að eiga við um mál er varðar veika sjómenn um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni.

Tekið er fram að um almenna umfjöllun sé að ræða án þess að fullyrt sé um hvernig atvik þess máls falli undir ákvæði laganna en lögreglan á Vestfjörðum rannsakar  málið sem sakamál.

Ríkar skyldur skipstjóra

Í minnisblaðinu segir:

að sjómannalögin gildi um alla sjómenn á íslenskum skipum og hefur skipstjóri í öllum efnum hið æðsta vald á skipinu. Allir um borð í skipi, eru skyldir til að vinna þau verk eftir megni sem skipstjóri metur nauðsynleg vegna öryggis skips eða manna sem á skipi eru.

að þeim manni sem verkum stjórnar sé skylt að gæta þess að fylgt sé nauðsynlegum varúðarreglum gegn slysum og sjúkdómum en það er í verkahring skipstjóra að hafa eftirlit með heilbrigðismálum og hreinlæti á skipinu.

að það sé skylda skipstjóra að  sjá til þess að veikur skipverji fái nauðsynlega umönnun á skipinu eða í landi  Orðrétt segir í minnisblaðinu: „Ef ástæða er til að ætla að skipverji sé haldinn sjúkdómi sem hætta stafar af fyrir aðra menn á skipinu skuli skipstjóri láta flytja sjúklinginn í land ef eigi reynist unnt að verjast smithættu á skipinu.“

Þungar refsingar 

Þá er fjallað um þau ákvæði sem finna má um brot gegn lögunum og refsingar.

Þar segir að ákvæði um brot gegn lögunum og refsingar nái til brota sem framin eru á íslenskum skipum, hvar sem þau hafa þá verið stödd. Vísað er til 76. gr. sjómannalaganna sem segir að ef skipstjóri misbeitir agavaldi sínu eða beiti hann ónauðsynlegri harðneskju við skipverja, vanræki skyldur sínar við veika eða slasaða skipverja eða láti hann skipverja eigi fá lögboðið viðurværi varðar það sektum, fangelsi allt að tveimur árum eða fangelsi allt að fjórum árum ef miklar sakir eru.

Athyglisvert er það sem fram kemur í minnisblaðinu að ef höfða skal mál út af broti gegn þessu ákvæði skal áður leggja það fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið til umsagnar.

Refsiákvæði í öðrum lögum

Þá er í minnisblaðinu vikið að ákvæðum í öðrum lögum sem kunna að eiga við. Þar segir að refsiákvæði annarra laga geti átt við ef aðrar og þyngri refsingar liggja við broti samkvæmt þeim.

Það eru ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem koma til álita. Í minnisblaðinu segir: „Í 1. mgr. 175. gr. laganna segir að hver, sem veldur hættu á því, að næmur sjúkdómur komi upp eða berist út meðal manna, með því að brjóta gegn lagafyrirmælum um varnir gegn næmum sjúkdómum eða varúðarreglum yfirvalda, sem þar að lúta, skuli sæta fangelsi allt að 3 árum. Refsingin getur þó orðið fangelsi allt að 6 árum, ef um sjúkdóma er að ræða, sem hið opinbera hefur gert sérstakar ráðstafanir til að hefta eða afstýra, að berist hingað til lands.“

Loks er minnt á leiðbeiningar sem sameiginlega voru samin af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og stéttarfélögum sjómanna, í samstarfi við embætti landlæknis, og sendar á útgerðir. „Samkvæmt þeim hefði átt að hafa samband við Landhelgisgæslu Íslands, sem meðal annars rekur vakstöð siglinga, þegar veikinda varð vart en misbrestur hafi orðið á þessu.“

 

DEILA