Safnahúsið Ísafirði: störfum breytt og ráðið án auglýsingar

Ekki var ráðið í starf forstöðumanns Safnahússins eftir að Jóna Símonía Bjarnadóttir hætti haustið 2019  en hún  tók þá við starfi forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða.

Í svörum Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra og Bryndísar Óskar Jónsdóttur, bæjarritara kemur fram að verkefnin sem tilheyrðu starfinu hafi í október 2019 verið færð yfir á þá tvo starfsmenn sem fyrir voru á safninu og störfum þeirra breytt í störf forstöðumanna. Annars vegar forstöðumanns bókasafns Ísafjarðar og hins vegar forstöðumanns héraðsskjala- og ljósmyndasafns.

„Af ýmsum ástæðum, áður sögðum, láðist að gera formlega samninga við þær Eddu og Guðfinnu vegna þessa. Því var þó loksins lokið síðsumars í ár, og var sú vinna á hendi mín, bæjarstjóra og mannauðsstjóra“ segir í svari bæjaritara.

Tilkynnt var um nýja forstöðumenn á vef Ísafjarðarbæjar 28.8. 2020.

Spurningunni hvers vegna störfin voru ekki auglýst svara bæjarstjóri þannig:

„Vegna þess að í þessu tilviki var ekki um nýjar stöður að ræða heldur breytingar og tilfærslur verkefna á þeim störfum sem fyrir voru. Þetta er í samræmi við reglur bæjarins varðandi auglýsingar á störfum en undantekningar frá auglýsingu má gera þegar um er að ræða tímabundnar ráðningar sem standa eiga skemur en 6 mánuði eða ef um er að ræða tilfærslu í starfi. Í þessu tilviki var um tilfærslur í starfi að ræða.“

Við breytinguna varð hækkun á launum úr kr. 500.039 í kr. 593.909 eða um 18,8%. Á móti sparast laun fyrri forstöðumanns segir í svari bæjarstjóra.

Ráðningarnar hafa hvorki farið fyrir bæjarráð né bæjarstjórn samkvæmt fundargerðum. Þá hefur heldur ekki verið bókað neitt um breytingar á störfunum.

Í samþykkt  um ljósmyndasafn Ísafjarðar segir að forstöðumaður sé ráðinn af bæjarstjórn
Ísafjarðarbæjar. Héraðsskjalasafnið heyrir undir bæjarráð.

Bæjarstjóri var inntur eftir því hvers vegan ráðningarnar fóru ekki fyrir bæjarráð og bæjarstjórn.

Því svaraði hann þannig: „Þegar ráðið var í stöðuna á sínum tíma var sá háttur hafður á að bæjarráð fól bæjarstjóra að ganga frá ráðningunni í samræmi við reglur bæjarmálasamþykktar, án aðkomu bæjarstjórnar. Sami háttur var viðhafður í tengslum við þessar breytingar.“

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri vísar í svari sínu til ákvæða bæjarmálasamþykktar sveitarfélagsins um ráðningu stjórnenda og annarra starfsmanna:

„Í bæjarmálasamþykkt Ísafjarðarbæjar er að finna ákvæði í 50.gr. „Ráðning stjórnenda“ „Bæjarstjórn ræður sviðsstjóra. Enn fremur ræður bæjarstjórn, að fengnum tillögum viðkomandi fagráða og stjórna, framkvæmdastjóra fyrirtækja með sjálfstæðan fjárhag sem eru í eigu bæjarsjóðs.“ Í 51.gr. „Ráðning annarra starfsmanna“ Bæjarstjóri ræður stjórnendur stofnana að fengnum tillögum viðkomandi fagnefnda. Stjórnendur stofnana ráða aðra starfsmenn í samráði við sviðsstjóra.“ Héraðskjalasafnið er ekki með sjálfstæðan fjárhag og fellur því ekki undir 50.gr. bæjarmálasamþykktar. Þessi ráðning sem hér um ræðir fellur þ.a.l. undir 51.gr. bæjarmálasamþykktar.“

Þann 9. september sl var óskað eftir því við bæjarritara að fá lista yfir þau störf sem bæjarstjórn réði í skv 50. greininni og auk þess þau störf stjórnenda stofnana sem bæjarstjóri réði í skv 51. greininni. Enn er beðið er svara.

Aðspurður svaraði bæjarstjóri því til að skipulagsbreytingarnar hafi verið kynntar fyrir bæjarráði á fundi 29. júní s.l.

Í þeirri fundargerð er bókað eftirfarandi:

„Lagðar fram tillögur Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra, Bryndísar Óskar Jónsdóttur, sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, Axels R. Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, Margrétar Geirsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs og Stefaníu Ásmundsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, varðandi útfærslur verkefna og tillagna úr skýrslu HLH ehf. um stjórnsýsluúttektar Ísafjarðarbæjar.“

Ekki kemur fram hvaða störf tillögurnar varða.

 

 

DEILA