Laxveiði í Djúpinu: 56% samdráttur frá 2018

Langadalsá. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Laxveiði á stöng í ám í Ísafjarðardjúpi varð dræm í sumar samkvæmt bráðabirgðatölum Hafrannsóknarstofnunar. Í Langadalsá veiddust 110 laxar, aðeins 15 laxar í Hvannadalsá og 111 laxar í Laugardalsá. Samtals veiddust því 236 laxar.

þetta er annað árið í röð með afar dræmri veiði. Í fyrrasumar veiddust 207 laxar í þessum þremur ám samkvæmt endanlegum tölum. Sumarið 2018 varð öllu betra en þá veiddust 539 laxar.   Veiði í sumar varð því um 56% minni en sumarið 2018.

Hlutfallslegar er mestur samdráttur í Hvannadalsá. Veiðin fer úr 103 löxum sumarið 2018 niður í 15 laxa í sumar. Það er um 85% samdráttur.

Sumarið 2019 var meðalþyngd laxa í Djúpinu 2,5 kg svo ætla má að alls hafi veiðst um 600 kg af laxi í sumar í þessum þremur ám að því gefnu að sama meðalþyngd hafi verið í sumar.

DEILA