Latnast dagur, lækkar sól

Indriði á Skjaldfönn  á gott vísnahaust og kemur hver vísan annarri betri á vefinn frá honum. Kemur hann víða við og heimur hans er stærri en nokkur Skjaldfannardalur.

 

 

Hér er ein falleg náttúrulífsmynd um haustið:

Latnast dagur, lækkar sól.
Landið skrýðist hélukjól.
Þröstur gerist ferðafús.
Fæðu safnar lítil mús.
Hér er önnur um þá tillögu að leggja af mannanafnanefnd:
Afbragðs gott er frelsi að fá
og frjórri kosta leita.
Kölski má nú, sætur sá,
sonur okkar heita.
Og af því að nú er föstudagskvöld og húsgangurinn Gísli Marteinn á skjánum, hvort sem okkur líkar betur eða verr þá skal rifjuð upp þessi nýlega vísa:
Á TALI HJÁ GÍSLA MARTEINI.
Á skjánum var í koti kátt
og kvennaskari fríður
og Gísli Marteinn hafði hátt
—hvað sem öðru líður.
DEILA