Landvernd: vill hætta við tengipunkt í Ísafjarðardjúpi

Í umsögn Landverndar um 10 ára framkvæmdaáætlun Landnets er bent á að HS Orka hafi slegið framkvæmdum við Hvalárvirkjun á frest um óákveðin tíma. „Engar virkjanir eru því í farvatninu sem nýta tengipunkt í Djúpinu og ætti Landsnet því óhikað að taka hann af framkvæmdaáætlun“ segir í umsögninni.

Eins og fram hefur komið er umrætt tengivirki á framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára og er forsenda þess að unnt verði að koma rafmagni frá Hvalárvirkjun og öðrum virkjunum á því svæði inn á dreifikerfi Landsnets.

Landvernd vísar til skýrslu sem samtökin létu gera um bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum. Þar kemur fram að straumleysismínútum á Vestfjörðum megi fækka verulega með lagningu jarðstrengja á bilanagjörnustu leiðunum.

Í svörum Landsnets segir að sérfræðingar fyrirtækisins séu sammála  því að með því að setja erfiða hluta flutningslína á Vestfjörðum í jörðu sé hægt að bæta afhendingaröryggi á svæðinu. En  benda á að möguleikar til jarðstrengslagna á Vestfjörðum eru takmarkaðir sökum lágs kerfisstyrks á svæðinu (lágt skammhlaupsafl).

„Rannsóknir sem Landsnet hefur staðið að benda til þess að þessir möguleikar til strenglagningar flutningslína á Vestfjörðum séu takmarkaðir vegna lágs skammhlaupsafls á svæðinu.“ segir í svörum Landsnets.

„Það er mat okkar hjá Landsneti að ekki sé tímabært að taka verkefni sem snýr að uppsetningu nýs afhendingarstaðar í Ísafjarðardjúpi út af framkvæmdaáætlun að svo stöddu.“

Þá segir í umsögn Landverndar að tenging við Ísafjörð um ráðgerðan tengipunkt í Djúpinu sé tæknilega óraunhæf vegna takmarkana á notkun jarðstrengja á leiðinni.

Því er Landsnet ósammála og segir að  í stefnu stjórnvalda um lagningu raflína komi fram að verði heimilt að nota loftlínur í rökstuddum undantekningartilvikum,  t.d. ef í umhverfismati kemur fram að loftlína sé talin betri kostur út frá umhverfissjónarmiðum og þegar kostnaður við jarðstrengi sé meira en tvisvar sinnum hærri en kostnaður við loftlínu.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!