Karfan: Eva Margrét Kristjánsdóttir valin í landsliðið

Eva Margrét Kristjánsdóttir í KFÍ búningnum árið 2015. Myndir: aðsendar.

Tilkynnt hefur verið kvennalandslið Íslands í körfubolta sem leikur í  Grikklandi dagana 8.- 15. nóvember.  Þrír nýliðar eru í hópnum og þeirra á meðal er Eva Margrét Kristjánsdóttir sem alin er upp innan raða KFÍ, forvera Vestra, og hóf meistaraflokksferilinn sinn með liðinu aðeins 14 ára gömul árið 2011. Körfuknattleiksdeild Vestra vakti athygli á þessu á facebook síðu sinni í gær. Þar segir að Eva María hafi snemma verið mikið efni og hefur hún leikið með öllum yngri landsliðum Íslands. Hún lék með meistaraflokki kvenna hjá KFÍ síðast þegar telft var fram liði frá Ísafirði sem var árið 2015.

Síðan þá hefur Eva leikið með úrvalsdeildarliði Hauka við góðan orðstýr og er meðal lykilleikmanna liðsins. Þegar flett er upp í sögubókunum kemur í ljós að þetta í annað sinn sem uppalinn leikmaður Vestra á sæti í kvennalandsliðinu því árið 2000 átti Sigríður Guðjónsdóttir sæti í liðinu og lék 4 landsleiki. Auk þess lék Tinna B. Sigmundsdóttir leikmaður KFÍ 3 leiki með liðinu árið 2001.

Eva Margrét í leik með KFÍ árið 2015.

 

DEILA