Ísafjörður: 2.110 tonnum landað í september

Klakkur ÍS. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Alls var 2.110 tonnum af fiski landað í Ísafjarðarhöfn í september. Þar af voru 448 tonn af innfluttri rækju þannig að landaður afli var 1.662 tonn.

Botnfiskur var um 1.600 tonn, rækja 62 tonn og 245 kg af igulkerjum var landað í mánuðinum.

Tveir handfærabátar lönduðu 3,5 tonnum og það var Klakkur ÍS sem veiddi 56 tonn af rækju auk þess sem Bjarni Sæmundsson RE landaði 6 tonnum.

Sex togarar lönduðu í Ísafjarðarhöfn í mánuðinum. Páll Pálsson ÍS var með 545 tonn og Stefnir ÍS landaði 482 tonn. Þá voru fjórir aðkomutogarar að veiðum á Vestfjarðamiðum og lönduðu á Ísafirði nærri 600 tonnum.

Tveir þeirra eru frá Grenivík, Vörður ÞH og Áskell ÞH og var afla þeirra ekið norður. Frosti ÞH veiddi fyrir íslenskt sjávarfang í Kópavogi og Pálína Þórunn GK seldi afla sinn til Nesfisk í Garði.

DEILA