Ísafjarðarbær segir upp öryggisvakt eldra fólks

Hlíf. Mynd: Ísafjarðarbær.

Ísafjarðarbæ sagði upp í gær öllum fimm starfsmönnum sem sinna öryggisvakt hjá slökkviliði Ísafjarðarbæjar. Umræddir starfsmenn skipa með sér, eina viku í senn, að vera á öryggisvakt frá kl 16 á daginn til kl 8 að morgni fimm daga vikunnar og allan sólarhringinn um helgar. Þeir sjá um fyrstu viðbrögð þegar notaður er öryggishnappur sem meðal annars er í íbúðum eldri borgara á Hlíf. Þeir sinna einnig svörum í íbúðum í Bolungavík og á þingeyri auk Ísafjarðar. Öryggisverðirnar fara á staðinn ef með þarf.

Uppsagnirnar taka gildi um mánaðamótin og rennur uppsagnarfrestur út 31. janúar 2021.

Í uppsagnarbréfinu sem bæjarstjóri undirritar segir að uppsögnin sé vegna skipulagsbreytinga.

Bæjarins besta innti Birgi Gunnarsson, bæjarstjóra eftir því hvernig öryggisgæslunni yrði háttað eftir að starfsmennirnir hafa látið af störfum.

„Það er unnið að útfærslu á því en núverandi kerfi er orðið úrelt þ.e. þeir öryggishnappar sem við erum með í notkun eru ekki lengur í framleiðslu. Við þurfum því að leita annarra leiða með hagsmuni notendanna að leiðarljósi. Þeir hnappar sem öryggisfyrirtækin bjóða í dag eru mun betri en þeir sem eru í notkun hjá okkur í dag.“

Birgir sagðist gera ráð fyrir að samið yrði við öryggisfyrirtæki um að útvega öryggishnappa fyrir skjólstæðinga bæjarins þ.e. þá sem búa á Hlíf 1 og sjái um vöktun á þeim. „En þetta er í vinnslu og verður kynnt ítarlega fyrir notendum þjónustunnar þegar útfærslan liggur fyrir.“

DEILA