Hnífsdalur: Hádegisstein festur varanlega

Hádegissteinninn vegur tugi tonna og ekki að spyrja að hættunni sem myndast ef hann hrynur ofan í byggðina.

Vinna er í gangi við Hádegisstein í Hnífsdal og eru íbúar og aðrir beðnir um vera ekki á ferðinni neðan við steininn næstu daga vegna hættu á grjóthruni á meðan á framkvæmdum stendur.

Árið 2017 samþykkti bæjarráð Ísafjarðar að steinninn yrði sprengdur og var það álit sérfræðinga að heppilegra væri að fjarlægja steininn með sprengingum en að festa hann niður með víravirki.

Vegna óánægju íbúa í Hnífsdal var hætt við þá framkvæmd og sumarið eftir var steinninn festur niður með vírum til bráðabirgða.

Nú er verið að ganga varanlega frá með því að steypa undir steininn undirstöður þannig að hann megi haldast í hlíðinni um ókomna tíð.

DEILA