Haustleiðangur Hafrannsóknarstofnunar

RS. Bjarni Sæmundsson á siglingu frá Hafnarfirði að kvöldi 26. október 2020. Ljósm. Andreas Macrander.

Að kvöldi 26. október 2020, hélt rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson í árlegan haustleiðangur Hafrannsóknastofnunar.

Megintilgangur leiðangursins í ár er tvíþættur, langtímavöktun á ástandi sjávar umhverfis landið og bergmálsmælingar á íslenskri sumargotssíld.

Eins verður fjölmörgum öðrum verkefnum sinnt.

Á Hornbanka er stefnt að því að leggja út neðansjávarlögn til þess að mæla innstreymi hlýsjávar inn á Norðurmið.

Einnig verða nokkur rekdufl sett í sjóinn víðsvegar fyrir erlendan samstarfsaðila til að fylgjast með yfirborðsstraumum í Norður Atlantshafinu.

Auk þessa er gert ráð fyrir að taka upp mælilagnir í Patreksfirði og Reyðarfirði sem hafa mælt súrefni við botn, strauma o.fl. í allt að 9 mánuði. Rannsóknirnar í fjörðunum eru þáttur í gagnaöflun vegna mats á burðarþoli þeirra m.t.t. fiskeldis.

Í fyrri hluta leiðangursins verður einnig gerð könnun á magni og útbreiðslu rækju á Skjálfanda og lagt verður út hlustunardufl djúpt út af Langanesi vegna rannsóknar á atferli andanefja og annarra hvala en það verkefni er á vegum vísindamanna við Háskóla Íslands.

Áætlað er að leiðangurinn vari í 24 daga og fylgjast má með gangi leiðangursins á skip.hafro.is.

DEILA