Fiskistofa fylgist með skráningu á undirmálsfiski

Þegar undirmálsafli er reiknaður til kvóta gildir hann einungis helminginn af því sem gildir um stærri fisk. Skylt er að koma með allan afla að landi og það hefur því verið talið æskilegt að koma til móts við þá sem fá smáfisk í veiðiferð með því að draga einungis helming af kvótanum af bátnum og vinna þannig gegn brottkasti.

Á móti kemur að þetta fyrirkomulag getur skapað freistingu til að skrá stærri fisk sem undirmál og minnka þannig kvótafrádráttinn á móti aflanum.

Eftirlitsmenn Fiskistofu hafa reglulega eftirlit með réttmæti skráningar á undirmálsafla bæði á hafnarvog og í vinnsluhúsum, þ.m.t. hjá fiskmörkuðum. Þetta er gert með því að taka prufur úr lönduðum undirmálsafla og athuga hvort flokkunin í undirmál standist þær reglur sem um hana gilda.

Hér að neðan má sjá niðurstöður undirmálsmælinga sem Fiskistofa hefur staðið að á undanförnum 5 árum skipt eftir þeim veiðarfærum sem aflinn veiddist á. Af litaskiptingu borðanna á myndinni sést hvort landaður afli sem kannaður var hafi réttilega (blátt) eða ranglega (appelsínugult) verið skráður sem undirmál.

Þarna má lesa bæði hlutfall og fjölda bæði rétt og rangt skráðra tilfella. Árið 2015 voru t.d. teknar 32 prufur úr undirmálslöndun á afla frá landbeittri línu og af þeim stóðust 22 tilfelli ekki skoðun því ekki var um undirmálsafla að ræða.

DEILA