Dynjandisheiði: stefnt að snjómokstri fimm daga vikunnar

Frá Dynjandisheiði.

Vegagerðin stefnir að því að Dynjandisheiði verði mokuð á virkum dögum á komandi vetri með þeim fyrirvara að ekki verður mokað í slæmu veðri.  Heiðin verður mokuð báðum megin frá. Á Patreksfirði er nýr blásari og verður hann þar áfram.  Ný jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar verða opnuð fyrir umferð í þessum mánuði.

Geir Sigursson, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni segir að mokstursreglurnar hafi ekki  verið gefnar út en séu væntanlegar á næstunni. Þetta verður fyrsti veturinn sem reglulegur mokstur verður á heiðinni og segir Geir að líta megi á þetta sem tilraunavetur hvað reglur um moksturinn varðar.

Mokstur á Dynjandisheiði er nýtt verkefni í vetrarþjónustu og samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðar segir í bókun að hún hafi áhyggjur af fjármögnun þeirrar þjónustu. Nefndin telur mjög brýnt að sérstakt framlag frá ríkinu verði tryggt í þennan mokstur.

 

DEILA