Bryndísar Schram: Brosað gegnum tárin

Í tilefni af nýútkominni bók Bryndísar Schram BROSAÐ GEGNUM TÁRIN birtum við hér brot úr bókinni – einn af köflum hennar um Ísafjarðarárin, þegar hún stýrði Menntaskólanum á Ísafirði í fjarveru Jóns Baldvins sem þá hafði vetursetu við Harvard háskólann. 

Bryndís les upp úr bók sinni á Edinborg Bistro þriðjudaginn 6. október kl. 17-19.

Hápunktur veru minnar fyrir vestan var árið, sem ég var skólameistari,1976-1977. Það var líka alveg óvænt. Jón Baldvin hafði allt í einu fengið Fulbright styrk til vetursetu við Harvard háskóla og var á förum. Ég hafði kennt við skólann alveg frá byrjun og verið skólameistara innan handar í stóru og smáu. Ráðherra menntamála, Vilhjálmur Hjálmarsson, framsóknarmaður að austan og hinn mesti öðlingur, sá því enga ástæðu til að hafna þeirri hugmynd, að frúin tæki að sér stjórn skólans í fjarveru eiginmannsins. Hann gerði sér meira að segja erindi vestur til þess að kynnast okkur ögn – eða kannski til að sannfæra sjálfan sig um, að honum væri alveg óhætt að setja mig, stelpu að sunnan, í svo þýðingarmikið starf.

Mér er enn efst í huga tilfinningin, sem greip mig, þegar ég gekk í fyrsta sinn inn í gamla barnaskólahúsið þetta haust með stresstösku skólameistara í handarkrikanum. Nemendur stóðu beggja megin gangsins, með tvírætt bros á vörum, eins og þeir  vissu ekki almennilega, hvort þeir ættu að taka þetta nýja hlutverk mitt alvarlega. Ég var líka hálffeimin. En ég var ekki kvíðin. Og ég var alveg með það á hreinu, hvernig ég ætlaði að stjórna og hvað ég ætlaði að gera þennan vetur. Ég ætlaði að vera réttsýn, ég ætlaði að vera sanngjörn – og ég ætlaði að vera glöð…..þó svo að ég gréti í koddann minn á hverju kvöldi – ein og yfirgefin.

Og þetta var gleðilegur vetur. Það var engu líkara en að bæði nemendur og kennarar væru sammála um, að allt ætti að ganga vel. Það var eins og allir stæðu með mér, líka bæjarbúar, sem áttu það þó til að agnúast út í þetta „svokallaða menntafólk að sunnan, sem aldrei ynni handtak og færi yfirleitt aldrei úr sparifötunum!“

Alltaf var jafngaman að mæta í skólann á morgnana, byrja á rótsterku kaffi, spjalla við nemendur og kennara, vera ljúf en samt ströng, halda aga en vera samt sanngjörn. Fyrir mér voru kennslustundir eins og þaulskipulagðar leiksýningar, þar sem ég lék á móti nemendum, fékk þá til að tileinka sér beygingar óreglulegra franskra sagna án þess að þeir tækju eftir því. Ég naut þess að leiðbeina, þó að ég drægi verulega úr því þennan annasama vetur.

Þegar ég kom svo loksins heim síðdegis með fangið fullt af heimaverkefnum, höfðu krakkarnir mínir það fyrir sið að sitja í röð neðst í stiganum og bíða eftir mér, rétt eins og ég væri að koma úr langferð og við hefðum ekki sést í marga daga. Þeim lá öllum svo mikið á hjarta…töluðu hvert upp í annað: Glúmur hafði lent í slagsmálum úti á götu, Snæfríður hafði gleymt pennaveskinu í skólanum, eða Kolfinna hafði dottið í poll á heimleiðinni úr skólanum…..Og svo voru þau öll glorsoltin. Ég man satt að segja ekki, hvernig ég fór að því að leysa öll þessi vandamál. Og nennti ég virkilega að elda dag hvern oní mig og krakkana?  Enginn pabbi á staðnum. Ég man það bara, að á sunnudögum fórum við alla vega saman út í sjoppu, öll fjögur, og veittum okkur þann munað að kaupa pyslur og kók í hádegismatinn. Kannski ís á eftir. Bara svona til hátíðarbrigða! Við vorum öll svolítið einmana. Okkur vantaði höfuð fjölskyldunnar.

Kennarar og aðrir starfsmenn voru afbragð annarra manna – enda sérvaldir af Jóni Baldvini. Frá upphafi var kennaralið MÍ allt vel menntað fólk og sumir hverjir stórbrotnir karakterar, sem settu svip sinn á bæjarlífið – og jafnvel allt þjóðfélagið, þegar á leið. Því að fjórir eða fimm urðu alþingismenn, tveir urðu ráðherrar, einn eða tveir ráðuneytisstjórar, sendiherrar, forstjórar ríkisstofnana og höfundur rússnesk-íslenskrar orðabókar. Einn þeirra varð seinna einn afkastamesti rithöfundur samtímans í sagnfræði –og sjálfur forseti Íslands, var prófdómari við skólann um árabil. Geri aðrir betur! Ég efast um, að nokkur skóli á Íslandi hafi verið svo vel mannaður, nema ef vera kynni Menntaskólinn í Reykjavík, þegar ég sat þar á skólabekk í gamla daga.

Allir kennararnir stóðu þétt að baki mér og voru vinir í raun, þegar á reyndi. En hver átti nóg með sig, og það var ekki mikið um samskipti utan skólans, nema þegar ég bauð til veislu einstaka sinnum heima í stofu.

Ragnar H.Ragnars og Sigríður kona hans, sem ráku Tónlistarskóla Ísafjarðar, gengu mér í foreldrastað þennan vetur. Þau voru bæði tvö ógleymanlegar persónur, einlæg, örlát og hjartahrein. Hús þeirra stóð mér opið nótt sem nýtan dag. Þau sýndu mér skilning, og hjá þeim leitaði ég huggunar í einmanaleik mínum.

Ég átti ekki marga nána vini meðal bæjarbúa. Ég var eflaust bara ein af þessum „svokölluðu“ menntamönnum úr Reykjavík, sem leyfðu sér að hafa skoðanir á öllu. Og líklega var það rétt, sem sumir sögðu, að bæjarbúar nytu ekki góðs af skólanum, hann væri í engum tengslum við hinn almenna bæjarbúa.

Og það var þess vegna, sem ég fékk þá flugu í kollinn að stofna kvöldskóla á Ísafirði strax árið 1974 í þeim tilgangi að efla tengslin við hinn almenna bæjarbúa. Og svo var ég líka með í huga allar þessa áströlsku og nýsjálensku dugnaðarstelpur, sem settu mjög svo svip sinn á vestfirsku þorpin á þessum árum. Þær voru allar í fiski og vildu ólmar læra mál heimamanna.

Ég man, hvað það var mikið áfall fyrir mig – og óvænt – að komast að raun um, að meirihluti þess fólks, sem skráði sig til náms í kvöldskólanum, hafði aldrei gengið í skóla, aldrei átt þess kost í fjarlægri sveit inni í Djúpi eða norður á Ströndum að ganga menntaveginn. Við urðum að fara á byrjunarreit. Nú gafst tækifæri til að bæta úr því.

Ég fékk nokkra kennara til liðs við mig og kenndi sjálf erlend tungumál. Þegar  ég svo tók við starfi skólameistara við MÍ, hafði kvöldskólinn verið rekinn með góðum árangri í tvö ár. En vegna anna minna og vegna barnanna heima sagði ég mig frá kvöldskólakennslu þennan vetur. En ég veit ekki betur en að kvöldskólinn sé enn starfandi og hafi skilað af sér fjölda stúdenta.

Ég sé það á bréfum sem við Jón Baldvin skrifuðum hvort öðru milli heimsálfa, að söknuðurinn hefur verið sár og einsemdin kvöl. Bréfin voru óralengi á leiðinni, tvær eða þrjár vikur – engar tölvur þá né snjallsímar í vasa. Dag eftir dag kom hann að póstkassanum tómum. Á hverjum morgni sat ég um bréfberann, örvæntingarfull og vondauf.

Í rauninni lifðum við tvöföldu lífi þennan vetur. Hann naut þess í botn að sitja við lestur og skriftir á bókasafni frægasta háskóla í heimi og taka þátt í umræðum, sem voru uppspretta nýrra hugmynda um lífið og tilveruna – vitsmunaleg örvun dag eftir dag. En á nóttunni sótti að honum depurð og nístandi einmanaleiki – kannski ótti.

Mitt tvöfalda líf fólst í því, að ég naut mín í starfi, naut þess að segja fólki til og að vera ómissandi. Ég fann aftur mitt gamla sjálfstraust, og var glöð – á daginn. En á nóttunni, þegar ég lá ein í þessu kalda rúmi, bærðu efasemdirnar á sér. Hvað ef hann kæmi aldrei til baka, gleymdi mér úti í hinum stóra heimi við glaum og gleði?

 

DEILA