Bíldudalur: fallið frá lóðaúthlutun

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar hefur fallið frá því að úthluta lóðunum Langahlíð 16a og 16b undir íbúðabyggingar. Ákveðið var í byrjun september að að láta fara fram grenndar­kynningu vegna byggingaráformanna við Lönguhlíð. Ætlunin var að byggja fjögurra íbúða hús á hvorri lóð.

Óskað var umsagnar Veðurstofunnar vegna nálægðar bílastæða við ofanflóðavarnir. Umsögn barst frá Veðurstofunni með bréfi dags. 22. september 2020. Í umsögninni kemur fram að Veðurstofan telur réttast að ekki sé að svo komnu máli reistar nýjar byggingar á A-hættusvæðum undir varnargörðum. Hvort sem það er á lóðum ofan núverandi byggðar eða nær varnargörðum en fyrirliggjandi byggð nú stendur. Leggst Veðurstofan gegn því að byggðin verði teygð nær hlíðinni eða nær varnargörðum.

Endurskoða þarf hættumat

Fram kemur í umsögn Veðurstofunnar að endurskoða þarf hættumat undir nokkrum varnargörðum í kjölfar atburðanna á Flateyri í janúar sl. og verður hættumat svæðis við varnargarð undir Búðagili endurskoðað í vetur.

Í bréfinu segir orðrétt:

„Að því sögðu vill Veðurstofan taka fram að leiðigarðurinn undir Búðargili er að hennar mati vel heppnað varnarvirki sem reist er á stað þar sem auðvelt var að koma fyrir slíkum garði með hentugu leiðihorni. Veðurstofan er ekki með þessu svari að draga í efa að garðurinn undir Búðargili þjóni sínu hlutverki að verja núverandi byggð. Hins vegar telur hún rétt að fara varlega í að reisa ný hús á svæðum sem eru varin með varnarvirkjum í ljósi óhjákvæmilegrar óvissu um virkni slíkra mannvirkja eins og nánar er rakið í skýrslu um hættumatið frá 2018.“

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar samþykkti að falla frá áformum um byggingu íbúðarhús við Lönguhlíð 16a og 16b.

Byggja við Hafnarbraut í staðinn

Samþykkt var um leið að grenndarkynnt verði um fyrirhugaða úthlutun lóðar og ný áform um byggingu 10 íbúða íbúðarhúss neðan Hafnarbrautar á núverandi landfyllingu.

DEILA