Arnarlax: góð fjárfesting í umhverfisvænni starfsemi

Höfuðstöðvar Arnarlax á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Eins og fram kom í fréttum í gær þá  hafa íslenskir fagfjárfestar ákveðið að kaupa hlutafé í Arnarlax fyrir um 5 milljarða króna. Fram til þessa  hafa erlendir fjárfestar, einkum norskir og pólskir, staðið að uppbyggingu laxeldis í sjó á Íslandi á undanförnum áratug.

Þetta eru straumhvörf í uppbyggingunni og staðfestir að innlendir aðilar eru nú tilbúnir að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu fiskeldisfyrirtækjanna á Vestfjörðum og á Austurlandi.

Þetta eru Gildi, lífeyrissjóður sem kauir til rúmlega 3 milljarða króna og Stefnir, fjárfestingarsjóður, sem er í eigu Arionbanka.

Bæjarins besta leitaði til forsvarsmanna Gildis og Stefnis og innti þá eftir hvers vegna ákveðið hafi verið að fjárfesta í Arnarlax og hvort framhald yrði á fjárfestingu í atvinnugreininni.

Gildi: sjálfbær starfsemi

Árni Guðmundsson, forsvarsmaður Gildis varð fyrir svörum og fara þau hér á eftir:

Ástæður fyrir því að Gildi fjárfesti í Icelandic Salmon:

Áhersla Icelandic Salmon á sjálfbærni í starfsemi sinni, gæði og vottanir í framleiðslunni og virðingu fyrir umhverfinu gera félagið að áhugaverðum fjárfestingarkosti að mati sjóðsins. Icelandic Salmon er öflugt og vaxandi framleiðslufyrirtæki sem nær til allrar virðiskeðju laxeldis á Íslandi. Þetta er fjárfesting í vaxandi grein sem við höfum væntingar um að skili sjóðnum góðri ávöxtun til lengri tíma.

Er þetta fyrsta fjárfestingin í laxeldinu og hvers er að vænta um framtíðarfjárfestingar?

Gildi var ekki hluthafi í félaginu áður. Það gildir um fjárfestingar í þessum geira eins og öðrum að þær eru rýndar og skoðaðar sjálfstætt. Sjóðurinn hefur ekki tekið ákvörðun um frekari fjárfestingar í laxeldi að svo stöddu.

Stefnir: Gott fjárfestingartækifæri

Jóhann Möller, framkvæmdastjóri Stefnis segir að það sé „mat sjóðstjóra hjá okkur að hér sé um gott fjárfestingartækifæri að ræða í grein sem hefur tekið út mikinn þroska undanfarin ár auk þess sem greinin hafi mikil tækifæri til frekari vaxtar á næstu árum.“

Seinni spurningunni svaraði Jóhann þannig:

„Nei við höfðum áður fjárfest í ICEFISH fyrr á árinu þegar þeir skráðu sig á Merkur markaðinn í Noregi, svo byrjuðum við að kaupa í Arnarlaxi í vor, og erum núna að auka vægi íslensks laxeldis í okkar sjóðum.“

 

DEILA