Arnarlax: Gildi fjárfestir í fyrirtækinu

Höfuðstöðvar Arnarlax á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Arnarlax hefur tilkynnt til norsku kauphallarinnar áform um skráningu á Merkur hlutafjárlistann og fyrirhugaða sölu nýs hlutafjár fyrir um 55 milljónir evra, sem samsvarar nærri 9 milljörðum króna.

Það er vefurinn SalmonBusiness.com sem greinir frá nú í morgun. Erlent eignarhaldsfélag Arnarlax sem heitir Icelandic Salmon er skráð fyrir sölunni. Féð verður notað til þess að fjármagna frekari uppbyggingu félagsins, svo sem byggingu seiðaeldisstöðvar og uppbyggingu lífmassa.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax staðfestir að mikill áhugi sé á því meðal fjárfesta að kaupa nýtt hlutafé og að lífeyrissjóðurinn Gildi muni fjárfesta í fyrirtækinu og verða einn stærsti hluthafinn. Í Gildi eru 52.000 sjóðsfélagar. Þá mun íslenski fjárfestingarsjóðurinn Stefnir einnig taka þátt í útboðinu og kaupa hlutafé samkvæmt því sem fram kemur á vef norsku kauphallarinnar.

Með þátttöku Gildis og Stefnis er brotið blað í uppbyggingu fiskeldis hér á landi þar sem innlendir fjárfestar koma nú að fjármögnun. Áætlað verðmæti Arnarlax er um 52 milljarðar króna.

 

DEILA