Vestri : Keflavík í dag

Frá leik Vestra gegn Magna Grenivík fyrir skömmu á Olísvellinum.

Knattspyrnulið Vestra mætir toppliði Keflavíkur í Lengjudeildinni kl 16:15 í dag. Leikið verður á Olísvellinum á Ísafirði.

Keflvíkingar hafa sýnt stöðugleika í sumar og eru efstir í deildinni með 34 stig eftir 16 leiki, einu meira en Leiknir Reykjavík og Fram sem þó hafa bæði leikið 17 leiki.  Staða Keflvíkinga er því vænleg og eiga þeir góða möguleika á því að vinna sér sæti í Úrvalsdeildinni næsta sumar.

Hins vegar hefur Vestri átt góðu gegn að fagna gegn efstu liðunum og unnið Leikni og Fram náði jafntefli gegn Vestra á eigin heimavelli fyrir skömmu með marki á fimmtu mínútu í uppbótartíma. Að vísu tapaði Vestri illa gegn Keflvíkingum syðra 4:1 og hugsa sér nú að jafna metin.

Vestri er í 7. sæti deildarinnar með 26 stig og hefur gengið vonum framar. Liðið er hársbreidd frá því að gulltryggja sæti sitt í deildinni næsta sumar og jafntefli í dag væri nóg til þess.

Vestfirðingar eru hvattir til þess að mæta á völlinn í dag og hvetja Vestra áfram.

 

DEILA