Vestfirðir: fækkaði um 30 manns í ágúst

Mest hefur fjölgað á Tálknafirði.

Íbúum á Vestfjörðum fækkaði um 30 manns í ágústmánuði og voru 1. september 7.028 með lögheimili í fjórðungnum. Frá 1. desember 2019 hefur fækkað um 90 manns.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Þjóðskrár Íslands.

Mest varð fækkunin í ágústmánuði í Ísafjarðarbæ, en þar fækkaði um 23 íbúa. Í Bolungavík fækkaði um 10 manns og í Reykhólahreppi fækkaði um 4 íbúa.Óbreyttur íbúafjöldi er í Strandabyggð og fjölgun varð í fimm sveitarfélögum. Mest fjölgun varð í Tálknafjarðarhreppi, en það fjölgaði um 13 manns sem er hvorki meira né minna en 6,3%. Fjölgun varð um einn íbúa í Vesturbyggð, Súðavíkurhreppi, Árneshreppi og Kaldrananeshreppi.

Frá 1. desember 2019 hefur íbúum fækkað um 90 manns á Vestfjörðum. Mest er fækkunin á norðanverðum Vestfjörðum, en þar fækkaði um 90 manns. Í Reykhólahreppi hefur fækkað um 24 íbúa, um 3 í Strandasýslu en á sunnanverðum Vestfjörðum hefur fjölgað um 27 manns.

 

DEILA