Vegagerðin: Teigsskógur boðinn út vorið 2022

Teigsskógur.

Vegagerðin gerir ráð fyrir að nýr vegur um hið umdeilda vegstæði um Teigsskóg, það er frá Hallsteinsnesi að Þórisstöðum, verði ekki boðin út fyrr en vorið 2022 og þeim hluta lokið haustið 2023.

Þetta kom fram á fundi Vegagerðarinnar með þingmönnum Norðvesturkjördæmis um vegaframkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum sem haldinn var fyrir helgi.

Vegagerðin gerir síðan ráð fyrir að bjóða út þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar í vor (það er vorið 2021) og að því verkefni verði lokið haustið 2023.

Guðjón Brjánsson, alþm segir að Vegagerðin hafi á fundinum gert þingmönnum grein fyrir áformum sínum um vegaframkvæmdir í Gufudalssveit.

Fyrsti áfangi í Gufudalssveit hefur verið boðinn út. Þeim framkvæmdahluta á að ljúka samkvæmt áætlun um mitt næsta sumar. Gert er ráð fyrir að 2. áfangi, þverun Þorskafjarðar verði boðinn út nú í október og verði lokið haustið 2022.

Guðjón sagði að nokkrir lausir endar væru enn í þessu langa og sögulega máli og talsverðar áskoranir framundan. „En ef áform Vegagerðarinnar ganga eftir sem við vonum auðvitað öll að verði raunin, þá má gera ráð fyrir að nýr vegur um Gufudalssveit verði tilbúinn til notkunar fyrir veturnætur 2023.“

 

DEILA