Vegagerðin sér um vita landsins

Legufæri ljósduflanna sem gjarnan er fjögurra tonna steinn ásamt allt að 70 metra langri keðju eru hífð upp á dekk Þórs og yfirfarin.

Vegagerðin annast rekstur landsvitakerfisins og hefur umsjón og eftirlit með uppbyggingu hafnarvita og innsiglingarmerkja. Landsvitar eru til leiðbeiningar á almennum siglingaleiðum og eru í eigu og umsjá ríkisins en hafnarvitar, sem vísa leið inn til hafnar eða eru innan hafnsögu hafnar, eru í eigu og umsjá sveitarfélaga.

Landsvitakerfið samanstendur af 104 ljósvitum, 11 siglingaduflum og 16 radarsvörum sem er komið fyrir þar sem landslagi er þannig háttað að erfitt er að ná fram endurvarpi á ratsjá skipa.

Hafnarvitakerfið er byggt upp af tæplega 20 ljósvitum, um 90 innsiglingarljósum á garðsendum og bryggjum, rúmlega 80 leiðarljósalínum og tæplega 50 baujum er vísa leið í innsiglingum að höfnum.

Viðhald og eftirlit Vegagerðarinnar með vitum landsins skiptist í stórum dráttum í eftirlit með ljósabúnaði og viðhald á vitabyggingum.

Á hverju ári fær Vegagerðin aðstoð Landhelgisgæslunnar og í síðustu viku fór varðskipið Þór í árlegan vitatúr.

Meðal verkefna í vitatúrunum er að yfirfara rafgeyma og sólarspegla auk þess að endurnýja perur. Einnig er skipt um vindrafstöðvar auk annars tilfallandi viðhalds.

DEILA