Varnir landsins í lagi

Árið hefur verið viðburðaríkt fyrir varnarmálasvið Landhelgisgæslu Íslands. Þrátt fyrir farsóttina hefur tekist að halda flestum forgangsverkefnum á sviði öryggis- og varnarmála gangandi og uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands þegar kemur að öryggis- og varnarsamstarfinu.

Viðamiklum uppfærslum og endurbótum á ratsjáreftirlitskerfunum á Miðnesheiði, Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli og Stokksnesi lauk í ágúst.
Framkvæmdir voru að mestu kostaðar af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Framkvæmdin var unnin af sérfræðingum Landhelgisgæslunnar, NATO og Lockheed Martin, framleiðanda búnaðarins.

Á sama tíma hafa verið til framkvæmdar stór sem smá viðhaldsverkefni á öryggissvæðunum. Á Stokksnesi standa yfir umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir á stöðvarhúsinu sem árlega verður fyrir miklum ágangi sjávar. Auk þess sem í gangi er átaksverkefni í hreinsa upp olíumengun fyrri tíma á svæðinu.

Á Bolafjalli er unnið að því að gera svæðið öruggara og aðgengilegra fyrir ferðamenn sem vilja sjá útsýnið af Bolafjalli í samvinnu við Bolungarvíkurkaupstað.

DEILA