Súðavík: óviðunandi ástandi í afhendingu raforku

Sveitarstjórn Súðavíkur hefur áyktað um slæmt ástand í raforkumálum í sveitarfélaginu. Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri segir að afleitt ástand hafi verið mjög til umræðu á mörgum fundum innan sveitarfélagsins og þá einkum varðandi varaafl og afhendingaröryggi í Inndjúpinu. Síðastliðinn vetur var erfiður hvað það varðar og rafmagn oft úti.

Ályktunin í heild:

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps leggur á það áherslu að afhendingaröryggi raforku verði tryggt í sveitarfélaginu auk þess sem aðgengileg orka verði aukin þannig að unnt sé að stuðla að atvinnuþróun í sveitarfélaginu. Núverandi ástand mála er óviðunandi að mati sveitarstjórnar og leggur sveitarstjórn á það áherslu að tekin verði ákvörðun um uppbyggingu tengivirkja til Súðavíkur, hvort heldur með endurnýjun línu eða lagningu strengs, enda stendur skortur á raforku og afhendingaröryggi atvinnu og byggðarþróun fyrir þrifum. Sveitarstjórn harmar sinnuleysi kjörinna fulltrúa í NV-kjördæmi varðandi raforkumál og afhendingaröryggi á Vestfjörðum. Sveitarstjórn kallar eftir því að Orkubú Vestfjarða og Landsnet komi fram með raunhæfar úrbætur á dreifikerfi Vestfjarða sem er langt frá ásættanlegu ástandi þegar komið er að vetri 2020.

DEILA