Samfylkingin: fagnar áframhaldandi uppbyggingu laxeldis á Vestfjörðum

Í stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi er fagnað áframhaldandi uppbyggingu laxeldis á Vestfjörðum og eru stjórnvöld kvött til þess að stuðla að frekari rannsóknum og skynsamlegri nýtingu á lífríkinu í fjörðunum þar sem það stuðlar að auknum atvinnumöguleikum á svæðinu. „það er undirstaða þess að sporna gegn fólksfækkun og auka lífsgæði í byggðunum, samfélaginu öllu til heilla“ segir orðrétt í ályktuninni.

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í kjördæminu hélt aðalfund sinn í Borgarnesi fyrir skömmu.

Breyta þarf kvótakerfinu – markaðurinn ákveði gjaldið

Um sjávarútvegsmálin segir:

„Það hefur sjaldan verið eins ljóst að þörf er á miklum breytingum í kvótakerfinu þar sem hagsmunir þjóðarinnar verði hafðir að leiðarljósi. Hópur útgerðarmanna hefur á liðnum árum fengið að nýta sameiginlega auðlind okkar allra í sína eigin þágu og m.a. til að styðja hið afturhaldssinnaða málgagn sitt sem hefur tapað hundruðum milljóna á liðnum árum.

Heppilegasta leiðin til að ákvarða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind er að nýta markaðslögmálin og hverfa frá núverandi, ótímabundnum sérleyfum í viðráðanlegum skrefum með útfærslu kerfis sem tekur tillit til byggðasjónarmiða, kemur í veg fyrir samþjöppun og virðir sérstöðu minni útgerða. Á þann hátt eru hagsmunir hinna dreifðu byggða landsins betur tryggðir og útgerðarmönnum er gert skylt að skila auknum hluta arðsins aftur til samfélagsins.“

Ný jarðgöng strax í áætlun

Í kaflanum umsamgöngumál segir m.a. um samgöngumál á Vestfjörðum að þjóðarskömm sé að því að enn skuli framkvæmdum í Gufudalssveit ekki vera lokið eftir áratuga þref og svo:

„Full ástæða er til að fagna því að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng sé að ljúka. Þar með hillir undir langþráð markmið um samtengingu norður- og suðurhluta Vestfjarða. Krafa er gerð um að vegaframkvæmdum á Dynjandisheiði og í Arnarfirði verði hraðað þannig að nýr vegur geti stutt við ný Dýrafjarðargöng. Þá er fyllilega tímabært að jarðgangaframkvæmdir undir Mikladal og Hálfdán og við Súðavík verði strax settar í nýja jarðgangaáætlun.“

 

DEILA