Orkuveita Reykjavíkur gegn tvöföldun Vesturlínu?

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur leggst gegn 90 milljarða króna fjárfestingaráætlun Landsnets til næstu 10 ára til þess að bæta flutningskerfi raforku á Íslandi. Segir Bjarni í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að „Landsnet eigi að einbeita sér að því að tryggja örugga afhendingu rafmagns til almennings í landinu en að meginflutningskerfið þurfi ekki þeirra fjárfestinga við sem drög að kerfisáætlun Landsnets gerir ráð fyrir.“

Verðið til stóriðju orðið of hátt

Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur við 10 ára áætlun Landsnets,en Fréttablaðið greindi frá innihaldi umsagnarinnar í síðustu viku, segir Bjarni Bjarnason að fjárfestingarnar myndu hækka flutningskostnað á raforku og hækka yrði gjaldið sem viðskiptavinir Landsnets myndu þurfa að greiða.

Það mun hafa áhrif á Orkuveitu Reykjavíkur sem framleiðir mikla raforku og selur til stóriðju. Hækkun kostnaðar við flutning á raforkunni mun koma niður á afkomu Orkuveitunnar. Bjarna segir í umsögninni til Landsnets að orkuverðið til stóriðju sé orðið of hátt.

Bæjarins besta óskaði eftir afriti af umsögn Orkuveitu Reykjavíkur en Bjarni Bjarnason sagði að umsögnin hafi ekki verið gerð opinber og hann geti því ekki afhent hana.  Upplýsingafulltrúi Landsnets sagði að allar umsagnir um fjárfestingaráætlunina yrðu birtar fljótlega.

Bjarni var spurður um afstöðu Orkuveitunnar til tvöföldunar Vesturlínu til Vestfjarða. Hann  sagði að umsögn Orkuveitu Reykjavíkur snúi ekki að einstökum framkvæmdum svo hann gæti ekki  tjáð sig um tvöföldun Vesturlínu. „Ég veit að rafmagnsöryggi er verulega ábótavant á Vestfjörðum og hef reyndar bent á það sjálfur við ýmis tækfæri“ og sagðist telja að Landsnet eigi að einbeita sér að því að tryggja örugga afhendingu rafmagns til almennings í landinu.

Tvöföldun Vesturlínu er sá kostur sem helst er horft til við úrbætur á rafmagnsöryggi á Vestfjörðum, ef ekki verður þar aukin raforkuframleiðsla með nýjum virkjunum. Kostnaður er áætlaður 12 – 15 milljarðar króna og er þessi framkvæmd ekki í 10 ára framkvæmdaáætlun Landsnets.

Spurður að því hvort þessi ummæli hans um ábótavant rafmagnsöryggi á Vestfjörðum þýddu að Orkuveitan styddi tvöföldun Vesturlínu til þess að bæta afhendingaröryggi til Vestfjarða, þá  vildi Bjarni ekki svara því umfram það sem hann hafði áður sagt.

Ný virkjun eða olía

Valkostirnir eru ekki margir þegar bæta skal raforkuöryggi á Vestfjörðum. Vestfirðingar hafa horft til þess að auka raforkuframleiðsluna í fjórðungnum og þá helst með Hvalárvirkjun. Með þeirri leið myndi kostnaður við nýjar flutningslínur falla á þá sem keyptu raforkuna frá nýju virkjuninni og raforkuöryggi til Vestfirðinga yrði á sama tíma stórlega bætt.

Hin leiðin er að bæta flutningsleiðirnar til Vestfjarða, enda er um 2/3 hlutar af raforkunni á Vestfjörðum flutt að. Þar er tvöföldun Vesturlínu langstærsta verkefnið og kostar mikið fé. Á móti þeim útgjöldum koma engar nýjar tekjur svo Landnet verður að greiða þann kostnað. Þá yrði Landsnet að afla tekna til að standa undir þeim útgjöldum og getur það aðeins með því að hækka flutningskostnað um land allt á alla notendur kerfisins, bæði stóriðju og  almenning. Það mætir andstöðu Orkuveitu Reykjavíkur og ef til vill fleiri aðila. Þá er bara sá kostur eftir að ríkið greiði kostnaðinn við úrbæturnar. Það hefur ekki komið til tals og er ekki sjáanlegt að pólitískur stuðningur sé við þá hugmynd.

Athyglisvert er að Landnet hefur byggt upp varaafl á norðanverðum Vestfjörðum með díselvélum. Það segir sína sögu um skortinn á pólitískum stuðningi við raunverulegar úrbætur á raforkuöryggi á Vestfjörðum.

Rafmagn er því framleitt með því að brenna olíu þegar flutningskerfið bregst. Það er ekki góður bragur á því á dæla koldíoxíði út í andrúmsloftið, en jafnvel Landvernd lætur sig hafa það að benda á þessa leið frekar en að virkja. Það hefur líka aðrar slæmar afleiðingar fyrir Vestfirðinga, einkum atvinnufyrirtækin. Verðið fyrir raforkuna hækkar stórlega þar sem með rafmagnsleysinu er ekki lengur aðgangur að raforku á afsláttarkjörum heldur verður að kaupa raforkuna framleidda með olíu á forgangsorkuverði sem er miklu hærra. Fyrirtækin hafa því kosið að mæta raforkuleysinu með því að draga úr orkukaupum.

Ný verðmæti er lausnin

Að óbreyttu er staða raforkumála á Vestfjörðum í sjálfheldu og Vestfirðingum hefur ekki tekist að sækja fram, hvorki til þess að bæta öryggið né til þess að opna nýja framleiðslumöguleika og atvinnutækifæri sem fylgja öruggu aðgengi að raforku framleiddri á svæðinu. Það er reynslan annars staðar að þegar tækifærin eru til staðar þá eru þau nýtt. Áformin um Hvalárvirkjun og reyndar athugun á fleiri virkjunarkostum eru vænlegasti kosturinn til þess að rjúfa kyrrstöðuna  með verðmætasköpun sem svo stendur undir kostnaðinum.

-k

 

DEILA