Niðurstöður könnunar ferðaþjóna á Vestfjörðum

Dagana 17. september til 27. september stóð Vestfjarðastofa fyrir könnun meðal ferðaþjóna á svæðinu. Alls tóku 44 fyrirtæki þátt í könnuninni og var skiptingin milli gistingar, veitinga og afþreyingar nokkuð jöfn. Af þeim 44 fyrirtækjum sem svöruðu könnuninni voru 54% sem hafa verið starfandi í 10 ár eða lengur, en aðeins 10% svarenda hefur verið starfandi í 3 ár eða skemur. Meirihluti fyrirtækjanna voru með færri en 5 starfsmenn, eða 84%. Það er því ljóst að fyrirtækin sem svöruðu könnuninni eru rótgróin, lítil ferðaþjónustufyrirtæki.

Fjármál og aðgerðar stjórnvalda

Aðeins 32% af þeim sem svöruðu eru að nýta úrræði stjórnvalda og þegar spurt var hvaða úrræði fyrirtækin séu helst að nýta, kemur í ljós að langflest fyrirtækin eru að nýta hlutabótaleiðina. Af þeim sem ekki eru að nýta sér úrræði stjórnvalda er um helmingur sem telur sig ekki þurfa á slíkum úrræðum að halda en helmingur sem telur fyrirtækið uppfylli ekki skilyrði vegna úrræða stjórnvalda. Um 42% fyrirtækja eru að vinna í fjárhagslegri endurskipulagningu og flest þeirra hafa gripið til uppsagna til að draga úr kostnaði.

Markaðs- og sölumál

Þegar spurt var út í markaðshlutdeild Íslendinga í framtíðinni kemur fram að um 37% fyrirtækja telja Íslendinga verði stærra hlutfall af viðskiptavinum í framtíðinni. En um 32% telur ekki að Íslendingar verði stærra hlutfall viðskiptavina í framtíðinni.

Um 60% þeirra fyrirtækja sem svara könnuninni segjast hafa aðlagað vöruframboð sitt vegna Covid-19, en 30% svarenda hafa haft óbreytt framboð. Þau fyrirtæki sem hafa aðlagað vöruframboð sitt hafa flest lækkað verð, aukið við markaðsefni á íslensku og breytt vöruframboði þannig að það henti betur íslenskum ferðamönnum.

Framtíðin

Tæplega 77% þeirra fyrirtækjanna sem tóku þátt í könnuninni verða með opið í vetur en 17% verða ekki með opið í vetur og er óljóst hvenær þau fyrirtæki sem hafa lokað muni opna aftur. Þegar spurt er út í hversu líklegt sé að fyrirtækið lífi af ástandið vegna Covid-19 eru um 73% sem telja það „Mjög líklegt“ eða „Frekar líklegt“ en 10% sem telur það frekar ólíklegt að fyrirtækið lifi af.

Heilt yfir virðist gæta ákveðinnar jákvæði meðal svarenda en þó er ljóst að uppsagnir hafa sett mörg ferðaþjónustufyrirtæki í erfiða stöðu. Þess ber einnig að geta að þrátt fyrir mikla jákvæðni er 10% svarenda sem telur ólíklegt að fyrirtækið sitt muni lifa ástandið af og fyrir veikt ferðaþjónustusvæði líkt og Vestfirði getur það verið mikið högg.

DEILA