Náttúra, auðlindir og samfélag á Vestfjörðum í brennidepli á fundum í Edinborgarhúsinu

Hvalá. Mynd: Rakel Valgeirsdóttir.

Landvernd stendur næstu þrjá daga fyrir fjórum rafrænum fundum um vestfirsk málefni. Fyrsti fundurinn verður í kvöld, fimmtudagskvöld og verður þar tekið fyrir fiskeldi. Framsögumenn verða Einar K. Guðfinnsson og Jón Kaldal. Raforkumál verða á dagskrá á föstudaginn, Árneshreppur og náttúruvernd á laugardaginn.

Fréttatilkynning Landverndar:

Um land allt takast á öfl með ólíka hagsmuni að leiðarljósi. Samfélagið þarf að fá að þróast, fólk þarf atvinnu, og atvinnulífið þarf svigrúm. Engu að síður ber okkur skylda til að gæta þeirra miklu verðmæta sem felast í ósnortinni náttúru, svo komandi kynslóðir, sem við gætum landsins fyrir, geti notið hennar um ókomin ár.

Landvernd vill stuðla að uppbyggilegri umræðu um þessi málefni, nú með rafrænum fundum sem sendir verða út frá Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 10. – 12. september. Á hverjum fundi hafa framsögu fulltrúar ólíkra sjónarmiða. Hægt er að taka þátt og senda inn spurningar eða álitamál. Krækjur á fundina: https://landvernd.is/fundarod-vestfirdir-2020/

Á sama tíma stendur yfir margmiðlunarsýningin Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur nú yfir í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Sýningunni lýkur laugardaginn 12. september.

Sýningin er hrífandi fögur, þar eru ljósmyndir eftir suma fremstu náttúruljósmyndara landsins, kvikmyndir sem voru gerðar sérstaklega fyrir sýninguna og áhugaverðar upplýsingar bæði í prentuðu máli og á gagnvirkum tölvuskjá. Á sýningunni er m.a. fjöldi mynda af dýrum sem lifa villt í náttúru Íslands. Myndirnar eru heillandi og höfða jafnt til barna og fullorðinna.

Tryggvi Felixson formaður Landverndar verður með lifandi leiðsögn um sýninguna kl. 12:00 – 12:30 dagana 10., 11. Og 12. september. https://www.facebook.com/events/908657632997371/

DAGSKRÁ

Fiskeldi, umhverfi og samfélag, fimmtudaginn 10. september kl. 19:30 – 21:00

Erindi og umræður: Jón Kaldal, Íslenska náttúruverndasjóðnum og Einar K. Guðfinnsson, Vestfirðingur og fv. ráðherra. Fundarstjórn: Landvernd.

Leiðir til að bæta orkuöryggi á Vestfjörðum, föstudaginn 11. september kl. 17:00 – 18:00

Erindi og umræður: Karl Ingólfsson, leiðsögumaður og Magni Þ. Pálsson, verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti. Fundarstjórn: Náttúruverndarsamtök Vestfjarða

Menning, saga og samfélag í Árneshreppi, laugardaginn 12. september kl. 14:00 – 15:00

Erindi og umræður:

  • Árneshreppur og Hornstrandir í vitund þjóðar – Finnbogi Hermannsson, rithöfundur og blaðamaður
  • Svipmyndir frá Árneshreppi – skot úr mynd Helga Felixsonar
  • Framtíð búsetu í Árneshreppi – Rakel Valgeirsdóttir, þjóðfræðingur

Fundarstjórn: Landvernd

Náttúruvernd til heilla, laugardaginn 12. september kl. 15:30 – 16:30

Erindi og umræður:

  • Heillandi Hornstrandir og mannlíf á Vestfjörðum – Brynja Huld Óskarsdóttir, landvörður
  • Faglegt mat og ákvarðanir vegna virkjana – Tryggvi Felixson, formaður Landverndar
  • Drangajökulsvíðerni í alþjóðlegu samhengi – Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar
  • Lokaorð – Hildur Dagbjört Arnardóttir, stjórn Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða

Fundarstjórn: Náttúruverndarsamtök Vestfjarða

DEILA