Listasmiðja í Tálknafjarðarskóla

Eins og sagt var frá í Bæjarins besta í vor fékk Tálknafjarðarskóli í samstarfi við Kómedíuleikhúsið veglegan styrk úr Barnamenningarsjóði til verkefnis sem ber heitið Listasmiðjur með listamönnum úr heimabyggð.

Um er að ræða þróunarverkefni sem er í boði fyrir alla skólana á sunnanverðum Vestfjörðum. Hugsunin bak við verkefnið er að auka flóru listsköpunar í litlu skólunum okkar á sunnanverðum Vestfjörðum. Hér er um að ræða samstarf milli skólanna og þeirra listamanna sem búa á eða eru ættaðir af svæðinu.

Listamennirnir koma heim og taka þátt í verkefninu með því að deila sinni þekkingu og list til barnanna í heimabyggð. Verkefnið er sniðið að börnum frá elstu tveimur árgöngum leikskóla til 10. bekkjar grunnskóla. Skipt er í tvo hópa, annars vegar leikskóli og 1.-4. bekkur saman hinsvegar og 5.-10. bekkur saman.

Listasmiðjunum er skipt niður í fimm lotur yfir skólaárið. Fyrstu fjórar smiðjurnar eru vinnusmiðjur og sú fimmta er lokahátíð og uppgjör. Smiðjurnar eru haldnar á tveggja mánaða fresti; 7. -11. september, 9.-13. nóvember, 25. – 29. janúar, 15.-19. mars og í lokin hátíð 21. maí. Hver smiðja er í viku í senn. Listamenn heimsækja yngri hópinn í sínum heimaskóla en eldri hópurinn sameinast á Tálknafirði.

Fyrsta vikan er nú yfirstaðin og fór hún fram dagana 7. til 11. september. Þeir listamenn sem kenndu í smiðjunni voru Þórarinn Hannesson með skapandi skrif, Daníel Perez Eðvarðsson með myndlist, Marion Worthmann með dans og Svavar Knútur með tónlist.

Umsagnir nemenda um námskeiðið voru mjög jákæð:
Þegar spurt var hvað lærðir þú í listasmiðjuvikunni var meðal annars svarað:
• Hvernig maður á að standa þegar maður talar fyrir framan fólk og hvernig maður skrifar ljóð
• Að líkaminn minn er hljóðfæri
• Ég lærði að allt getur verið list
Og þegar spurt var hvað var eftirminnilegast í listasmiðjuvikunni komu svörin:
• Tiktok dansar hjá Mayu
• Að semja ljóð hjá Tóta og það var gaman
• Að teikna á langa blaðið og hjá Svavari Knút

DEILA