Lengjudeildin: Vestri fær Fram í heimsókn í dag

Frá fyrri leik liðanna sem fram fór í Safamýrinni.

Í dag verður leikin heil umferð í Lengjudeildinni í knattspyrnu. Vestri fær lið Fram í heimsókn á Olísvöllinn á Torfnesi og hefst leikurinn kl 15:45.

Vestri er um miðja deild og hefur tryggt áframhaldandi veru sína í deildinni. Liðið getur því farið í leikinn áhyggjulausir og einbeitt sér að því að spila góðan leik.

Fram er í harðri baráttu um annað af tveimur efstu sætunum sem veita þátttökurétt í úrvalsdeildinni á næsta ár. Fram er í 3. sæti með 36 stig, jafnmörg og Leiknir Reykjavík sem er í 2. sæti og einu stigi minna en Keflavík sem eru efstir.

Vestri heimsótti Fram fyrir skömmu í Safamýrina og Vestramenn áttu góðan leik. Náðu forystunni og Fram náði með naumindum jafntefli á síðustu andartökum leiksins.

Það er því allt útlit fyrir skemmtilegan leik og eru Vestfirðingar hvattir til þess að mæta á völlinn og hvetja Vestra til sigurs.

DEILA