Kleifaheiði: göng frá Skápadal vænlegri

Gísli Eiríksson forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar telur að af tveimur jarðgangamöguleikum frá Patreksfirði yfir á Barðaströnd séu göng frá Skápadal vænlegri kostur. Þau séu styttri en göng undir Kleifaheiði.

Í minnisblaði sínu, sem kynnt var í gær á Bæjarins besta segir hann:

„Hægt er að hugsa sér að grafa um 7 km göng undir Kleifaheiði sem mundi stytta veginn um 4 km. Einnig er hægt að grafa um 6 km löng göng frá Holtsdal á Barðaströnd yfir í Skápadal sem er nokkuð utar í Patreksfirðinum, þá mundi Barðastrandavegur ekki styttast og vera áfram álíka langur og nú er. Kostnaður við lengri göng undir Kleifaheiði mundi líklega ekki standa undir 4 km styttingu þannig að leiðin um Skápadal er líklega hagkvæmari og vænlegra, en að fara beint undir Kleifaheiði.“

Frekar bæta milli Patreksfjarðar og Bíldudals

Að mati Gísla þarf að horfa til almenna markmiðsins til þess að raða niður leiðum. Meiri ávinningur sé í framförum til norðurs frá Patreksfirði en vestur yfir Kleifaheiði.

„Það má skipta almennum markmiðum um vegabætur í tvennt:

a) Bæta vegi innan þjónustusvæðis, til dæmis á milli lítilla þéttbýlisstaða þannig að samgöngur standi ekki í vegi fyrir að svæðið sé virkilega eitt svæði.

b) Bæta vegi frá svæðinu ekki síst fyrir flutninga til og frá.

Á milli þéttbýlisstaðanna í vestur Barðastrandarsýslu eru fjallvegirnir um Mikladal og Hálfdán aðalhindranirnar. Kleifaheiði miklu síður, þar sem á Barðaströnd er mun færra fólk. Til að að bæta samgöngur innan þjónustusvæðis þarf fyrst að skoða Hálfdán og Mikladal á milli Tálknafjarðar og Bíldudals til að bæta samgöngur. Varðandi leiðir til og frá svæðinu eru frekar álitamál.“

Kleifaheiði og Barðaströnd virðist ekki eins mikilvæg fyrir langferðaumferð eins og vegur um Arnarfjörð og Helluskarð segir í minnisblaðinu. „Kleifaheiði er hins vegar mikilvægari fyrir innansvæðisumferð. Til að skoða þessi mál frekar þyrfti að gera umferðarrannsókn hverjir fara yfir Kleifaheiði. Einnig skoða veðurfar og bera saman við Hálfdán og Mikladal.“

 

DEILA