Ísafjarðarbær: samstarf við Arctic Fish um staðarvalsgreiningu

Arctic Fish hefur sent Ísafjarðarbæ erindi og óskað eftir því að hafin verði formleg vinna milli Ísafjarðarbæjar og Arctic Fish að staðarvalkostagreiningu fyrir framtíðarþarfir fyrirtækisins.

Shiran Þórisson, fjármálastjóri Arcic Fish segir að sams konar erindi hafi verið sent til Bolungavíkurkaupstaðar og Súðavíkurhrepps. Gert er  ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir fljótlega eða  6-12 mánaða um hvar verði byggt upp. Shiran segir að stærsta fjárfestingin sé bygging sláturhúss fyrir vinnslu, en einnig þurfi aðstöðu fyrir samsetningu kvía, viðhalds fyrir þjónustubáta og þjónustuhöfn. Þessi uppbygging þarf ekki að vera öll á sama stað segir Shiran.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnaði erindinu og fól bæjarstjóra að vinna að gerð viljayfirlýsingar með félaginu og leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

Í erindinu kemur fram að Arctic Fish muni á þessu ári að slátra 8 000 tonnum af laxi. Á næsta ári verður magnið um 10.000 tonn og stöðug magnaukning árlega eftir það. Innan 5-10 ára þá er markmiðið að vera með yfir 20.000 tonn árlega í slátruðu magni.

„Samhliða örri uppbyggingu erum við að greina framtíðarþarfir okkar á ólíkum sviðum. Þessar þarfir þurfa að taka mið af mörgum þáttum sem nauðsynlegt er að hafa í huga til að við náum okkar settu markmiðum.
Þarfirnar fyrir starfsemi okkar er eftirfarandi; geymslusvæði, samsetningarsvæði, viðhalds mannvirki, viðhaldsmannvirki fyrir báta, skrifstofurými og vinnsluhúsnæði.“

 

Þeir  þættir sem þarf að haga í huga í skipulagningunni eru líffræðileg áhætta, flutningamál og flutningastjórnun og kostnaður segir í bréfinu.

„Varðandi líffræðilegu áhættuna þá er það lykilforsenda að fiskur sem er að koma frá öðrum eldissvæðum með brunnbátum fari siglingaleið sem virði 5km fjarlægðarmörk við eldisstaðsetningu og eldissvæði. Varðandi flutningastjórnun þá þurfa vegasamgöngur að vera með þeim hætti að við getum tryggt afhendingu afurða okkar inn á útflutningskerfið (flug og siglingar). Varðandi kostnaðinn þá er ljóst að kostnaður við landvinnslu er nú þegar of hár í samanburði við aðrar landvinnslur af svipaðri stærðargráðu og fjárfestingaforsendur þurfa því að miða að því að lækka kostnað við landvinnslu.“

Varðandi vinnsluhúsnæðið þá er rýmisþörfin um 10.000 fermetrar, fyrir utan bílastæði og útisvæðis fyrir flutningabíla. Lóðin þarf að vera nálægt sjó þar sem er 10 metra dýpi fyrir 60-100 metra löng skip.

Um er að ræða stórt fjárfestingarverkefni bæði fyrir sveitarfélag og fyrirtæki og því sé nauðsynlegt að skoða valkostina og greina þá. Erindinu lýkur með því að tekið er fram að  „félagið á eignir á Þingeyri og Flateyri og hefur einnig sótt eftir lóðum á Ísafirði þannig að fyrirtækið hefur gert það sem það getur gert að svo stöddu til að tryggja að það hafi valkosti í umræðunni.“

DEILA