Dynjandisheiði: skrifað undir verksamning

Auk forstjóranna Bergþóru Þorkelsdóttur og Sigurðar Ragnarssonar má sjá á myndinni þá Hauk Magnússon og Einar Hrafn Hjálmarsson frá ÍAV og Gunnar Sigurgeirsson og Sigurþór Guðmundsson frá Vegagerðinni

Greint er frá því á vef Vegagerðarinnar í dag að skrifað hafi verið undir verksamning við IAV hf um 1. áfanga sem er nýbygging Vestfjarðarvegar á um 10 km kafla.

Verkið skiptist í tvo kafla. Annars vegar um 5,7 km langan kafla við Þverdalsá (vegkafli 60-35) og hins vegar um 4,3 km langan kafla fyrir Meðalnes (vegkafli 60-38). Vegurinn við Þverdalsá er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði og liggur svo niður Penningsdalinn. Vegurinn fyrir Meðalnes er alfarið byggður í nýju vegstæði. Þverdalsáin rennur í Vatnsfjörð í Pennudal – ofan við Flókalund  en Meðalnesið er innst í Arnarfirði þar sem er Borgarfjörður og kaflinn byrjar nálægt Mjólkárvirkjun.

Byrjað verður á verkinu við Þverdalsá sem rennur í Pennu og mun verktakinn koma sér fyrir og hefja vinnu við sprengingar um mánaðamótin september og október.

Unnið verður við verkið í allan vetur ef aðstæður leyfa en samkvæmt verkáætlun á útlögn efra lags klæðingar að vera lokið 31. ágúst 2021. Verkinu skal síðan að fullu vera lokið 30. september 2021.

Við undirskrift samningsins sagði Sigurður Ragnarsson forstjóri ÍAV hf. að honum litist mjög vel á þetta verk og þar sem hann hefði nýverið ekið þessa leið myndi hann fagna því að geta í framtíðinni ekið þar um á hreinum bíl. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar sagði að ánægjulegt væri að hægt væri að fara í vegalagningu um Dynjandisheiði um leið lokið væri við gerð Dýrafjarðarganga en á tímabili var þessi vegagerð ekki áætluð fyrr en nokkuð seinna. Það mun því fela í sér að fjárfestingin í göngunum mun nýtast betur mun fyrr en ella.

DEILA