Byggðakort fyrir Ísland framlengt um eitt ár

Patreksfjörður. Vestfirðir eru á byggðakorti og þar heimilt að veita opinberan stuðning til fjárfestingar í atvinnulífinu.

ESA;eftirlitsstofnun EFTA, hefur ákveðið að framlengja byggðakort fyrir Ísland um eitt ár, eða fram til 31. desember 2021. Það skilgreinir þau svæði þar sem unnt er að veita svokallaða byggðaaðstoð í samræmi við leiðbeinandi reglur ESA þar um.

Byggðaaðstoð eða svæðisbundin ríkisaðstoð er stuðningur ríkis eða sveitarfélaga til að efla byggðaþróun og efnahagslíf á ákveðnu landsvæði. Kortið skiptist í höfuðborgarsvæðið  og Ísland utan höfuðborgarsvæðisins.  Á síðarnefnda svæðinu, þar sem rúmlega 35% þjóðarinnar búa, er mögulegt að veita byggðaaðstoð samvæmt reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð.

Byggðaaðstoð er ýmist veitt að fengnu samþykki ESA að undangenginni tilkynningu stjórnvalda um fyrirhugaðar ráðstafanir og snúa einkum að opinberum stuðningi við fjárfestingu.  Ígildi aðstoðar getur numið 15% af styrkhæfum fjárfestingakostnaði þegar um stór fyrirtæki er að ræða en hámarkshlutföllin eru 25% og 35% fyrir meðalstór og lítil fyrirtæki. Markmiðið er að fjárfestingin skapi ný bein störf og styrki þannig viðkomandi svæði.

Um byggðaaðstoð gilda ítarlegar reglur á 45 bls og þar segir m.a.:

„Byggðaaðstoð getur því aðeins talist samrýmanleg innra markaðnum að hún hafi hvatningaráhrif. Hvatningaráhrif eru til staðar þegar aðstoð breytir háttsemi fyrirtækis á þann hátt að það ræðst í viðbótarstarfsemi sem stuðlar að byggðaþróun, nokkuð sem það hefði ekki gert án aðstoðar eða hefði aðeins ráðist í slíka starfsemi á takmarkaðan eða annan hátt eða á öðrum stað.“

DEILA