Betuhús í Æðey

Betuhús er smíðað á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á tímabilinu 1773–1786.

Það var flutt út í Æðey 1878 og endurreist þar. Síðar var reist viðbygging við húsið sunnanvert og skúr við vesturhlið.

Betuhús er einlyft, portbyggt timburhús með risþaki, 7,60 m að lengd og 3,99 m á breidd. Skúr er við suðurhlið hússins, 7,60 m að lengd og 3,96 m á breidd, og inngönguskúr við vesturgafl, 4,88 m að lengd og 1,40 m á breidd, báðir með skúrþaki. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli, veggir eru klæddir slagþili, þök bárujárni og reykháfur er á þakinu sunnanverðu.

Á suðurstafni hússins eru tveir sex rúðu póstagluggar, tveir á norðurhlið auk þriggja rúðu glugga og á gaflhlaði vestan megin eru tveir tveggja rúðu gluggar og hurð fyrir miðju. Á suðurhlið skúrs eru tveir níu rúðu póstagluggar og einn sex rúðu á suðurgafli. Útidyr eru á vesturhlið inngönguskúrs og fjögurra rúðu póstagluggi.

Inn af inngönguskúr er forstofa og í henni stigi upp á loft og dyr að búri og kamesi en inn af því er stofa í austurhluta hússins. Í skúrnum er herbergi í hvorum helmingi og dyr að búri úr því fremra en að stofu úr því innra.

Í risi er herbergi í hvorum helmingi. Veggir í eldri hluta hússins eru flestir klæddir standþili eða standþiljum en strikuðum panelborðum inn á milli.
Skúr er klæddur strikuðum panelborðum. Í forstofu, búri og kamesi er loft á bitum, málningarpappír á milli bita í stofu og yfirfelld skarsúð á sperrum í risi. Skúrloft er klætt strikuðum panelborðum en inngönguskúr er ófrágenginn að innan. Forstofa, búr, kames og ris eru ómáluð.

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

DEILA