Atvinnu- og byggðakvótar metnir á 5,5 -7,6 milljarða króna á ári

Sjávarútvegsráðherra hefur sett í samráðsgátt drög að frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem varða ráðstöfun þeim aflaheimildum sem ríkið er með forræði yfir (5,3%). Breytingar sem lagðar eru til eru á grundvelli tillagna starfshóps um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda sem skilaði skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í febrúar 2020.

Í frumvarpinu verða þessi 5,3% aflaheimildanna kölluð einu nafni „atvinnu- og byggðakvótar“. Umtalsverð verðmæti felast í 5,3% heildaraflamarks, en heildarverðmæti atvinnu- og byggðakvóta er áætlað 5,5–7,6 milljarðar króna á fiskveiðiárinu 2019/2020 samkvæmt því sem fram kemur í frumvarpsdrögunum.

Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að Það sé stefna stjórnvalda að umræddar aflaheimildir nýtist til að tryggja byggðafestu í landinu og nýliðun í greininni og að ná jafnframt fram hámarksverðmætum þessara aflaheimilda.

Fram kemur að byggt er á  skýrslu starfshóps sem endurskoðaði meðferð og ráðstöfun ofangreindra aflaheimilda og skilaði af sér 18. febrúar 2020.

Meðal tillagnanna er :

að almennum byggðakvóta verði úthlutað til sex ára í samræmi við meðaltal fyrri ára og svigrúm aukið til að nýta hann í samræmi við aðstæður á hverjum stað.

að ónýttri línuívilnun verði úthlutað sem almennum byggðakvóta í samræmi við hlutdeild einstakra byggðarlaga á undangengnum árum.

að gert verði upp við handhafa skel- og rækjubóta og þær aflaheimildir renni í varasjóð til að bregðast við óvæntum áföllum í sjávarbyggðum.

Um línuívilnunina segir að lagt sé upp með að ónýtt hlutfall línuívilnunar á hverju þriggja mánaða tímabili færist sem viðbót við almennan byggðakvóta. Því verði síðan skipt milli sjávarbyggða í samræmi við hlutdeild þeirra í löndun línuívilnunar miðað við meðaltal undanfarinna ára.

Þá verði Byggðastofnun falið að gera samninga við einstök sveitarfélög um fyrirkomulag
úthlutunar almenns byggðakvóta og skal ráðherra setja reglur um nánari útfærslu slíkra samninga í reglugerð.
Jafnframt er kveðið á um það nýmæli að heimilt verður að bjóða opinberum aðilum, samtökum sveitarfélaga og fyrirtækjum aðild að slíkum samningum. Með þessum breytingum mun hlutverk Byggðastofnunar breytast úr ráðgjafahlutverki yfir í að hafa beina aðkomu að útfærslu, framkvæmd og eftirfylgni almenns byggðakvóta.

DEILA