Vestri karfa fer fram á stuðning sveitarfélagsins

Körfuknattleiksdeild Vestra hefur ritað bæjarráði Ísafjarðarbæjar bréf og fer þess á leit við bæjarráðið að sveitarfélagið komi til móts við deildina vegna þess mikla tekjufalls, sem hún hefur nú þegar orðið fyrir vegna Covid-19 faraldursins. T

Tapið hleypur á milljónum króna, segir í erindinu  og ennfremur segir að  ekki sjái fyrir endann á því hvort frekara fjárhagstjón muni hljótast af faraldrinum á starfsárinu 2020-2021, sem nú er að hefjast.

Það eru einkum þrjár ástæður fyrir tekjubresti deildarinnar:

Úrslitakeppnin féll niður

Covid-19 olli því að ekkert varð af úrslitakeppni Íslandsmóts KKÍ en þar hafði karlalið Vestra tryggt sér þátttökurétt. Má ætla að verulegt tekjutap hafi orðið vegna þessa í formi aðgangseyris og styrkja þótt einnig hafi upphæðir sparast í ferða- og dómarakostnaði.

fjáraflanir féllu niður um páskana

Allar fjáraflanir félagsins féllu niður frá mars og fram á sumar, en þær stærstu tengdust viðburðum í páskavikunni og útskrift MÍ, sem hefð er fyrir að deildin vinni fyrir.

körfuboltabúðirnar slegnar af

Mesta fjárhagslega áfallið fyrir deildina er þó það að ekki tókst að halda hinar árlegu Körfuboltabúðir Vestra. Þær áttu upphaflega að fara fram í byrjun júní, tólfta árið í röð, en var frestað fram í ágúst vegna Covid-19. Forsvarsmenn deildarinnar bundu miklar vonir við ágústbúðirnar en uppselt var í þær og langur biðlisti. Viku fyrir upphaf búðanna sáum við okkur tilneydd að aflýsa búðunum vegna Covid-19.

Afleiðingarnar munu að óbreyttu verða að  æfingagjöld iðkenda hækka til mikilla muna auk þess sem ýmis uppbyggingarverkefni, á borð við námskeið og betri aðbúnað, þurfa að mæta afgangi í rekstri deildarinnar á komandi misserum.

Ingólfur Þorleifsson, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir og Guðni Ó. Guðnason, f.h. körfuknattleiksdeildar Vestra, og Bjarki Stefánsson, f.h. HSV, komu  til fundar við bæjarráð og gerðu grein fyrir erindinu.

Bæjarstjóra var falið að vinna málið áfram.

DEILA