Vestfirðir : orkuframleiðsla langt undir orkuþörf

Virkjað vatnsafl á Vestfjörðum er um 23 MW með framleiðslu um 115 GWh á ári. Orkuþörf svæðisins var á árinu 2017, 247,7 GWh, aflþörf fer eftir árstíðum og getur verið allt að 40 MW yfir veturinn.

Flytja þarf því inn raforku af landsneti árið um kring, mismikið eftir árstíðum. Enginn
stórnotandi er af raforku, en raforkunotkun hefur verið hægt og sígandi upp á við þrátt fyrir
fækkun íbúa allt fram til ársins 2015.

Þetta kemur fram í umsögn Fjórðungsambands Vestfirðinga um kerfisáætlun Landsnets 2020-2029 sem var kynnt í bæjarráði Ísafjarðarbæjar í vikunni.

Þar segir einnig að tenging landshlutans við raforkukerfi landsins sé með einni geislalínu. Dreifð byggð, landslag og erfið veðurskilyrði gera verkefnið síðan erfiðara til úrlausnar miðað við aðra landshluta. Skapar það óöryggi í afhendingu sem mætt er með varaflsvélum knúnar jarðefnaeldsneyti.

Er síðan velt upp spurningunni hvernig megi  auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

Bent er á að um áratuga skeið hafi stórar virkjanaframkvæmdir verið drifkraftur í uppbyggingu flutningskerfis í öðrum landshlutum eða verkefni á sviði stóriðju.

„Hafa stjórnvöld og eða fyrirtæki í eigu ríkisins beitt sér marktækt í að veita þessum verkefnum brautargengi. Þessi verkefni hafa síðan dregið vagninn, í að auka afhendingaröryggi raforku í þessum landshlutum og þannig „sjálfkrafa“ treyst grundvöll fyrir uppbyggingu samfélaga og atvinnulífs.
Á Vestfjörðum voru á sama tíma engin orkutengd verkefni sem á líkan hátt stuðluðu að
auknu afhendingaröryggi raforku og eins hér að framan er lýst, er raforkukerfið því lítið og
veikt. Staða Vestfjarða í þessum efnum var því í upphafi þessara aldar orðin mjög skekkt.“

Rakið er að frá 2007 hafi verið gerðar ýmsar skýrslur um hvernig megi bæta úr stöðunni á Vestfjörðum bæði á vegum Landsnets, stjórnvalda og sveitarfélaga á Vestfjörðum og loks með samþykkt Alþingis  um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Minnt er á stefnu Fjórðungssambandsins um uppbyggingu á Vestfjörðum  í fiskeldi, vinnslu kalkþörunga, eflingu ferðaþjónustu, orkuskiptum og fjölgunar íbúa á grunni þessara uppbyggingar sem leiði til þess að raforkunotkun eykst um 3,6% á ári og verður um 475 GWh árið 2035.

Áætlanir Landsnets gangi of skammt til þess að mæta þessum áætlunum. Vill því Fjórðungssambandið að flýtt verði framkvæmdum við þrjú verkefni sem eru komin inn á framkvæmdaáætlun næstu ár :

Ísafjarðardjúp–nýr afhendingarstaður
Suðurfirðir Vestfjarða – styrkingar
Breiðidalur – endurnýjun tengivirkis

Lögð er mikið áhersla á frekari virkjanir á Vestfjörðum og minnt á að  gefin hafa verið út
rannsóknarleyfi fyrir um 135 MW,“ þar af er Hvalárvirkun í Ófeigsfirði stærst með 55 MW og
með um 320 GWh. Hvalárvirkjun er innan Rammaáætlunar og er kominn einna lengst í
undirbúning varðandi skipulagsmál og rannsóknir á virkjanastæði.“

DEILA