Veiðieftirliti Hafrannsóknastofnunar lokið

Ásgeir Gunnarsson fiskifræðingur, síðasti veiðieftirlitsstjóri Hafrannsóknastofnunar, með eftirlitssímann sem nú er þagnaður.

Með lagabreytingu sem samþykkt var á vorþingi færðist framkvæmd skyndilokanna frá Hafrannsóknastofnun til Fiskistofu.

Líkur þar með ríflega fjögurra áratuga sögu skyndilokanna Hafrannsóknastofnuar.

Núverandi kerfi skyndilokana á Íslandsmiðum má rekja allt aftur til ársins 1976.
Tilgangurinn með skyndilokun svæða er verndun smáfisks með það fyrir augum að draga úr smáfiskadrápi og líklegu brottkasti.

Fiskifræðingar á Hafrannsóknastofnun hafa staðið vaktir undanfarin ár og sett á skyndilokanir í kjölfar mælinga Fiskistofu og Landhelgisgæslu.

Talsverðar sveiflur hafa verið í fjölda skyndilokanna frá upphafi en flestar voru þær árið 2012 eða 188.

Skyndilokunum fækkaði mikið á síðasta ári og það sem af er þessu vegna breytinga á viðmiðunarmörkum sem gerð var 2019.
Frá upphafi hefur Hafrannsóknastofnun sett á um 3900 skyndilokanir, meirihlutann til verndunar smáþorsks og flestar á línuveiðar.

Síðustu vaktina í veiðieftirliti Hafrannsóknastofnunar stóð Ásgeir Gunnarsson fiskifræðingur og líkur þar með sögu veiðieftirlits stofnunarinnar. Fiskistofa mun nú annast framkvæmd skyndilokanna en Hafrannsóknastofnun mun ráðleggja um fiskifræðilega þætti er varða skyndilokanir eins og viðmiðunarmörk og tímalengd lokanna.

DEILA