Sunnanverðir Vestfirðir: samrekstur slökkviliðs og sjúkraflutninga í athugun

Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð hafa samþykkt að taka þátt í greiningu á
fýsileika þess að sameina slökkvilið og sjúkraflutninga á sunnanverðum Vestfjörðum með Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.  Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er tilbúin að fjármagna greininguna sem virðist kosta þrjár milljónir króna.

Á sunnanverðum Vestfjörðum eru sjúkraflutningar reknir af heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Tveir sjúkraflutningamenn eru á bakvakt á hverjum tíma og fá bæði greitt fyrir bakvaktir og útköll. Tveir sjúkrabílar eru á svæðinu, hýstir í aðstöðu á Patreksfirði í eigu Rauða kross Íslands.

Sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðahreppur reka slökkvilið á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, en sameinast um kostnað við störf slökkviliðsstjóra sem er í hálfu starfi.

Vesturbyggð og forstjóri Hvest hafa rætt um möguleika þess að skoða samrekstur en ekki hefur verið farið lengra með það mál, nema á umræðustigi. Í tengslum við endurbætur á hjúkrunarrýmum sjúkrahússins á Patreksfirði og undirbúning frumathugunar var m.a. rætt um aðstöðu fyrir sjúkrabíla við húsnæði sjúkrahússins. Möguleg bygging sjúkrabílaskýlisins er ein af ástæðum þess að lagt er til við bæjarráð að skoða málið núna. Þar sem mögulegt er að samlegðaráhrif næðust af samrekstri slökkviliðs og sjúkraflutninga þá gæti verið óskynsamlegt að byggja nýtt skýli við húsnæði heilbrigðisstofnunarinnar ef það er ekki besta rekstrarformið.

Slökkviliðsstjóri hefur athugasemdir við fyrirhugaðann samrekstur og er gagnrýninn á kostnaðinn við gerð skýrslunnar.

DEILA