Staðarkirkja í Grunnavík

Staðarkirkja í Grunnavík var byggð árið 1891 og var hönnuður kirkjunnar Guðmundur Árnason snikkari.

Staðarkirkja í Grunnavík er timburhús, 7,63 m að lengd og 5,73 m á breidd, með tvískiptan turn við vesturstafn, 2,21 m að lengd og 2,30 m á breidd.

Á stöpli er risþak upp að ferstrendum turni. Þök kirkju og turns eru krossreist.

Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli en stöpull á steinsteyptum kjallara.
Steinsteyptur reykháfur er við kórbak norðan megin.

Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn minni á framhlið stöpuls yfir dyrum.
Á framhlið turns er bogadreginn gluggi með T-laga pósti en hljómop með hlera fyrir á hvorri turnhlið.
Fyrir kirkjudyrum eru fjölspjalda vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Að framkirkju er spjaldsett hurð og gangur inn af að kór.
Hvorum megin gangs eru bekkir með ferstrendum rimlum í baki. Kórþil er í baki innstu bekkja sem klædd eru niður í gólf.
Setuloft á bitum er yfir meginhluta framkirkju og stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Strikasylla er efst á veggjum í kór og borðaklædd hvelfing yfir. Yfir setulofti er súðar- og skammbitaloft.

Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

DEILA