Sauðfjársetrið á Ströndum – Íslandsmeistaramótið í hrútadómum fellur niður

Í ljósi aðstæðna fellur Íslandsmeistaramótið í hrútadómum sem halda átti sunnudaginn 16. ágúst því miður niður þetta árið.

En þó mótið falli niður er Sauðfjársetrið á Ströndum, í Sævangi við Steingrímsfjörð opið frá 10-18 alla daga.

Á safninu er gert ráð fyrir 2ja metra fjarlægð milli ótengdra hópa og spritt og sótthreinsivörur eru aðgengilegar og brúkaðar af kappi.

Á safninu eru núna 4 skemmtilegar sýningar.

Fastasýning safnsins heitir Sauðfé og sveitafólk á Ströndum. Þar er fjallað um sauðfjárbúskap í máli og myndum og margvíslegar minjar að sjá frá liðnum tímum.

Í kaffistofunni Kaffi Kind er ljósmyndasýning, Lífið fyrir umbreytinguna, uppi í sumar. Þar gefur að líta magnaðar myndir úr Árneshreppi, teknar af Yrsu Roca Fannberg. Þessi sýning er sett upp í samvinnu við ljósmyndarann og Þjóðminjasafn Íslands. Önnur sýning mun leysa hana af hólmi í haust, þannig að það er um að gera að kíkja í kaffi og á sýninguna í Sævangi fljótlega.

Í sérsýningarherbergi er sögusýningin Sumardvöl í sveit, þar sem fjallað er um siðinn að senda börn í sveit. Esther Ösp Valdimarsdóttir mannfræðingur og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur settu þessa sýningu upp og er hún myndskreytt af Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur. Þessi sýning er þáttur í stóru rannsóknarverkefni háskólafólks sem Jónína Einarsdóttir mannfræðingur stýrir og hafa verið gefnar út tvær bækur á vegum þess.

Á listasviðinu er sýningin Álagablettir uppi. Hún er gerð af þjóðfræðingunum Jóni Jónssyni og Dagrúnu Ósk Jónsdóttur og er fjallað um álagabletti á Ströndum frá þjóðfræðilegu og listrænu sjónarhorni.

Fimmta sýningin er svo úti við göngustíginn Sjávarslóð. Þar eru söguskilti, fróðleikur og myndir, auk magnaðra skúlptúra eftir listamanninn Arngrím Sigurðsson. Öll sem vilja rölta Sjávarslóðina eru velkomin, bæði á og utan opnunartíma safnsins, og fá þá oft fylgd heimalninganna Puta og Línu.

Svo eru líka margir sem kíkja einfaldlega við í frappó og rabbarbarapæ eða súpu og kjötloku á Kaffi Kind eða kaupa sér náttúrubarnabol í minjagripabúðinni.

DEILA