Listasafninu á Ísafirði berst gjöf frá Bandaríkjunum

Fyrir skömmu barst Listasafni Ísafjarðar gjöf frá Bandaríkjunum en um er að ræða málverk af Ísafirði, málað af Jóni Hróbjartssyni 1931.

Gefandi er Ole Osrunn, fæddur og uppalinn í New York.
Hann erfði málverkið eftir föður sinn, Pál Ósrunn Guðmundssson, sem var fæddur á Ísafirði 1888 en flutti til Vesturheims 1919.
Páll var sonur Guðmundar Pálssonar beykis (1850-1937) og Guðfinnu Rósinkransdóttur (1954-1923).
Hann var elstur fjögurra systkina en þau voru: Ása fædd 1890, Sigríður fædd 1891, Kjartans Rósinkranz fæddur 1894. Uppeldissystir þeirra var María Sveinsdóttir fædd 1901.

Guðmundur beykir og fjölskylda voru áberandi í bæjarlífinu á Ísafirði enda virkir þátttakendur blómlegu menningarlífi þess tíma. Í minningargrein um Guðmund segir m.a.:

„Guðmundur beykir var sá borgari hér, er lengst allra hefir dvalið hér í bænum, og kornið við mörg málefni í félagslífi bæjarins. Hann var gleðimaður, og taldi ekki úr að leggja sitt lið til að gleðja aðra. Tók hann hér fyrstu ár sín mikinn þátt í sýningu sjónleikja, og lék sjálfur skoplegustu hlutverkin. Honum fanst það nauðsynlegt, að láta fólkið hlæja, til þess að létta lífsbyrðina, og honum fanst það dauður maður, sem ekki gat hlegið ærlega. En Guðmundur var þó jafnframt alvörumaður, sem geymdi sitt hjá sér. Mörgum nytjamálum bæjarins lagði Guðmundur beykir liðsinni sitt, því framfarir og menningu vildi hann styðja og þótti vænt um sinn gamla og nýja Ísafjörð.“ (Vesturland 20. febrúar 1937, 30).

Málverkið sem um ræðir var yfirfarið og hreinsað af forverði fyrir afhendingu og er í mjög góðu ásigkomulagi.
Í dag eru verk Jóns Hróbjartssonar eftirsótt og hafa hækkað í verði á uppboðum þannig að það er mikill fengur fyrir safnið að fá þessa gjöf. Hefur verið lögð áhersla á að eignast verk eftir Jón og þessi gjöf því vel þegin viðbót við safneignina.

DEILA