Kerecis tryggir 3 milljarða lánsfjármögnun

Fyrirgreiðsla frá Silicon Valley Bank, hluthöfum og öðrum lánveitendum styður við áframhaldandi vöxt Kerecis

Lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur tryggt 3 milljarða króna lánsfjármögnun til að fjármagna veltufjárþörf fyrirtækisins. Bandaríski bankinn Silicon Valley Bank lánar félaginu allt að 2,2 milljarða króna í formi ádráttarláns (e. revolving credit) og að auki tekur fyrirtækið 800 milljón króna lán, sem að stærstum hluta eru lán frá hluthöfum með breytirétti. Öll fjármögnunin er í dollurum. Meðalvextir fjármögnunarinnar eru 6.3%. Afsláttur af breytirétti er 20%.

Fjármögnun Kerecis hefur gengið vel undanfarin ár og kemur lánsfjármögnunin sem tilkynnt er um núna í kjölfar $2.2 milljarða hlutafjáraukningar „C“ sem fyrirtækið tilkynnti um í byrjun árs 2019. Einn þriðji hluti þeirrar upphæðar var skuldbreyting á breytiréttarlánum og tveir þriðju fjárfesting með reiðufé.

„Vöxtur á sölu Kerecis á sáraroði heldur áfram og er veltufjárþörf félagsins því vaxandi. Þessi 3 milljarða króna lánsfjármögnun tryggir okkur veltufé fyrir næstu misseri og gerir okkur kleift að halda áfram að stækka fyrirtækið hratt og koma sáraroðinu til fleiri og fleiri sjúklinga í Bandaríkjunum þar sem megin-markaður okkar er”, segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson stofnandi og stjórnarformaður Kerecis.

„Vörur Kerecis eru mikilvæg tækninýjung sem á fullt erindi á Bandaríkjamarkað, þar sem fyrirtækið er komið með sterka fótfestu. Það er einkar ánægjulegt fyrir okkur hjá Silicon Valley Bank að fá að taka þátt í þessari vegferð með Kerecis.” segir Julie Betts framkvæmdastjóri hjá Silicone Valley Bank.

 

Um Kerecis

Kerecis er brautryðjandi á heimsvísu í notkun náttúrulegs roðs og fitusýra í læknisfræðilegum tilgangi. Roðtækni fyrirtækisins hjálpar við endurbyggingu á sködduðum vef (e. regenerate) og byggir á fitusýruríku ósköðuðu roði. Úðatækni fyrirtækisins byggir á fitusýrum sem úðað er á sár og í munn- og nefhol til að verjast bakteríu- og vírussmitum.

Vörur Kerecis eru markaðssettar víða um heim og eru í dag einkum notaðar til að meðhöndla þrálát sár (t.d. sykursýkissár), bráðaáverka og í skurðstofuaðgerðum. Yfir 90% af tekjum fyrirtækisins koma af Bandaríkjamarkaði.

Markmið Kerecis er að auka lífsgæði fólks með því að fjölga þeim árum sem einstaklingar lifa við góða líkamsheilsu. Þeim markmiðum ætlar fyrirtækið að ná með tækni sem hjálpar sködduðum vef að endurbyggjast (e. regenerate) og með því að verja líkamann fyrir bakteríu- og vírussmitum. Tækni Kerecis er tækni náttúrunnar sjálfrar. Nánari upplýsingar á www.kerecis.com

Um Silicon Valley Bank

Í 35 ár hefur Silicon Valley Bank (SVB) unnið með frumkvöðlum og fjárfestum í að koma metnaðarfullum tækninýjungum á markað. SVB bíður sérsniðna fjármálaþjónustu og þekkingu fyrir frumkvöðla frá starfsstöðvum þar sem nýsköpun og tækniframfarir eru örar. Með viðskiptabankaþjónustu, alþjóðlegri bankastarfsemi og einkabankaþjónustu leysir bankinn þarfir frumkvöðla. Nánari upplýsingar á www.svb.com.

DEILA