JCI leitar að framúrskarandi ungum Íslendingum

Frá verðlaunafhendingunni 2019.

Samtökin Junior Chamber á Íslandi, JCI, leita eftir tilnefningum til  Framúrskarandi ungs Íslendings árið 2020 á aldrinum 18-40 ára. Verðlaunin eru veitt einstaklingum sem eru að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni og ná góðum árangri. Markmið verðlaunanna eru að verðlaunahafar hljóti hvatningu til frekari dáða og vekja athygli á verkum þeirra. 

Óskað er eftir tilnefningum frá lesendum Bæjarins besta um framúrskarandi einstaklingi úr bæjarfélagi og nærumhverfi á Vestfjörðum.

 Fram kemur í fréttatilkynningu að tilnefnt er í tíu mismunandi flokkum sem eru eftirfarandi: 

  • Störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði.
  • Störf á sviði stjórnmála, ríkismála og/eða lögfræði.
  • Leiðtogar/afrek á sviði menntamála.
  • Störf /afrek á sviði menningar.
  • Störf á sviði siðferðis og/eða umhverfismála.
  • Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda.
  • Störf á sviði mannúðar og/eða sjálfboðaliðamála.
  • Störf á sviði tækni og/eða vísinda.
  • Einstaklingssigrar og/eða afrek.
  • Störf /uppgötvanir á sviði læknisfræði.

Hægt er að senda inn tilnefningu til 13. september 2020 á www.framurskarandi.is.

Verðlaunin eru hluti af alþjóðlegu verðlaununum „Ten Outstanding Young Persons awards“ og eru veitt árlega af Junior Chamber International. Verðlaunin hafa verið veitt hérlendis óslitið frá árinu 2002 en á heimsvísu eiga þau sér sögu aftur til miðbiks síðustu aldar. Tveir íslendingar hafa fengið verðlaunin á heimsvísu, þau Kristín Rós Hákonardóttir íþróttakona og frumkvöðullinn Guðjón í Oz og þar bætast þau í hóp einstaklinga eins og John F. Kennedy, Elvis Presley og Jackie Chan. 

Auk þeirra Kristínar og Guðjóns hafa fjölmargir framúrskarandi einstaklingar fengið verðlaunin hér heima, t.d. Ingileif Friðriksdóttir, Ævar Þór Benediktsson, Sævar Helgi Bragason, Vilborg Arna Gissurardóttir, Emilíana Torrini svo einhver séu nefnd, og nú síðast Pétur Halldórsson formaður Ungra Umhverfissinna. 

Skilyrði fyrir tilnefningu er að viðkomandi einstaklingar hafi með sýnilegum hætti skarað fram úr, verið góðar fyrirmyndir og gefið af sér til samfélagsins. Séu þessi skilyrði uppfyllt komast þau í lokaúrtak sem dómnefnd sker svo úr um. 

Úr tilnefningum af landinu öllu er valinn topp 10 hópur af einstaklingum sem fær viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf á sínu sviði og úr þessum hóp fær einn einstaklingur verðlaun sem afhent eru af forseta Íslands, verndara verkefnisins. Verðlaunin verða veitt í október nk. en opið er fyrir innsendingar á tilnefningum til 13. september.

Í fyrra var það var það Pétur Halldórsson sem var verðlaunaður fyrir framlag sitt til umhverfismála. Pétur er formaður Ungra umhverfissinna og er ötull talsmaður náttúruverndar og valdeflingar ungs fólks. Pétur er í stjórn Landverndar og er mikill talsmaður þess að samrýma loftslagsaðgerðir og endurheimt vistkerfa. Hann hefur meðal annars gagnrýnt opinberlega ákveðið stefnuleysi í orkumálum þjóðarinnar.

DEILA