Ísfélag Vestmanneyja leggst gegn laxeldi í Fossfirði

Ísfélag Vestmannaeyja hf, sem keypti í fyrra jörðina Neðri Dufansdal í Fossfirði í Arnarfirði, leggst gegn því að laxeldiskvíar verði settar niður í Fossfirði. Þetta kemur fram í nýlegu bréfi fyrirtækisins. Leyfi fyrir eldinu í Fossfirði var gefið út 2012 og er með fyrstu leyfunum sem gefin voru út. Jafnframt vill Ísfélag Vestmannaeyja  að útgefin leyfi fyrir eldinu í Fossfirði verði felld niður.

Færð eru fram þau rök að eldið sé of nálægt ósum Dufansdalsár og sé þvi of nálægt á með villtan laxveiðistofn.  Þetta muni rýra verðmæti jarðarinnar segir í umsögn félagsins. Þá telur félagið að fella eigi leyfin úr gildi þar sem fiskur hafi ekki verið úti síðan 2016.

Tilefnið er að Hafrannsóknarstofnun hefur gert tillögu um afmörkun eldissvæða fyrir fiskeldi í Arnarfirði. Er það í framhaldi af lagabreytingum sem gerðar voru 2019 sem kveða á um að þar sem ekki liggur fyrir strandsvæðaskipulag skuli Hafrannsóknarstofnun gera tillögu að eldissvæðum i sjó á grundvelli burðarþols. Þær tillögur fara svo í almenna kynningu og unnt er að senda inn athugasemdir áður en ákvörðun er tekin um afmörkun eldissvæða. Skipulagsstofnun tekur saman umsagnirnar og skilar til Hafrannsóknarstofnunar með sinni umsögn.

Beðið er svara Stefáns Frðrikssonar, framkvæmdastjóra Ísfélagsins við fyrirspurn Bæjarins besta þar sem Stefán er inntur eftir því hvers vegna félagið er að fjárfesta í Arnarfirði og hvernig það fellur að starfsemi félagsins.

Engin laxveiði hefur verið skráð í Dufandalsá í opinberum skráum sem ná aftur til 1984, né nein önnur á í Arnarfirði. Áin er ekki á vöktunarlista Hafrannsóknarstofnunar yfir ár á Vestfjörðum.

 

DEILA