Ísafjarðarbær: Madis Mäekalle bæjarlistamaður 2020

Madis Mäekalle og Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Madis Mäekalle, blásturshljóðfærakennari og stjórnandi lúðrasveitar Tónlistarskóla Ísafjarðar, var útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2020 á skólasetningu tónlistarskólans í gær.

Í rökstuðningi atvinnu- og menningarmálanefndar segir:

„Madis Mäekalle var ráðinn til Tónlistarskóla Ísafjarðar árið 2002. Hann var sannkallaður hvalreki, ekki bara fyrir skólann heldur samfélagið allt.
Hann tók að sér blásturskennslu við skólann og undir hans stjórn hefur starf Lúðrasveitar Tónlistarskóla Ísafjarðar vaxið og dafnað.

Madis er afar stoltur af Lúðrasveitinni enda hefur hann lagt á sig mikla og óeigingjarna vinnu til að halda úti glæsilegri sveit.
Hann vílar ekki fyrir sér að útsetja hvert lagið á fætur öðru fyrir sveitina fyrir ýmsa atburði í samfélaginu og er óhætt að segja að Lúðrasveitin undir stjórn Madisar sé ómissandi þáttur í bæjarbrag Ísafjarðarbæjar eins og glögglega má sjá við tendrun jólaljósa á Silfurtorgi, í 1. maí göngu og á 17. júní svo eitthvað sé nefnt.

Madis hefur alla tíð sinnt starfi sínu af alúð og litið á það sem hlutverk sitt að efla kennslu á blásturshljóðfæri. Hann hefur í þeim tilgangi verið óþreytandi við að útsetja hverskyns tónlist fyrir stóra og litla hópa þannig að vel fari og hvatt hljóðfæraleika á öllum aldri til dáða svo að þeir leggja sig fram og eru stoltir af leik sínum.
Það er mikilvægur hæfileiki. Madis á auðvelt að hrífa fólk með sér enda feykigóður tónlistarmaður sem sannarlega ber nafn bæjarlistamanns Ísafjarðarbæjar 2020 með rentu.“

DEILA